fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífStafræn bókasafnsskírteini innleidd

Stafræn bókasafnsskírteini innleidd

Í dag urðu tímamót í sögu Bókasafns Hafnarfjarðar þegar fyrsta stafræna bókasafnsskírteinið var afhent. Þetta er jafnframt fyrsta stafræna bókasafnsskírteinið í almenningsbókasöfnum hér á landi.

Hægt að uppfæra í stafrænt skírteini í næstu heimsókn

Bókasafn Hafnarfjarðar hefur haft náið samstarf við bókasöfnin í Kópavogi og Garðabæ síðastliðin ár og þau munu fylgja í kjölfarið og innleiða stafræn bókasafnsskírteini hjá sér á næstu mánuðum. Sprotafyrirtækið SmartSolutions þróaði lausnina.

Allir sem eiga bókasafnsskírteini á plasti í dag geta uppfært í stafrænt skírteini í næstu heimsókn í bókasafnið. Þar með þarf enginn að hafa áhyggjur af því að gleyma skírteininu sínu ef viðkomandi hefur símann meðferðis. Nýjum lánþegum stendur vitaskuld strax til boða að fá afhent stafrænt skírteini. Margir hafa nú þegar sótt stafrænt ökuskírteini í símann sinn og stafrænum skírteinum mun án efa fjölga mikið á komandi árum.

Nýr vefur Bókasafns Hafnarfjarðar kominn í loftið

Í dag fór einnig nýr vefur Bókasafns Hafnarfjarðar í loftið og því tvöfalt tilefni til að fagna. Á nýjum vef er stórbætt aðgengi að upplýsingum um þjónustu bókasafnsins. Allt efni á vefnum hefur verið endurgert frá grunni og vefurinn nú aðgengilegur á fjórum tungumálum. Skólahópar geta bókað heimsóknir á vefnum og enn fremur má bóka tíma í Rabbrými til að taka upp hlaðvarpsþætti. Nýr vefur er enn ein afurðin sem byggir á Vitanum, hönnunarkerfi Hafnarfjarðarbæjar, en kerfið gerir sveitarfélaginu kleift að hraða stafrænni þróun og vinna slík verkefni á hagkvæmari og skjótari hátt en áður.

„Við erum afskaplega ánægð með að hafa náð þessum áfanga og við erum sannfærð um að stór hluti lánþega á eftir að fagna þessari nýjung enda mikil þægindi að hafa skírteini í símanum. Á síðustu misserum höfum við kappkostað að bæta þjónustuna í safninu með ýmsum nýjungum í starfseminni en safnið iðar af lífi frá morgni til kvölds. Þannig viljum við hafa það. Nýr vefur safnsins hefur einnig mikla þýðingu í bættri upplýsingagjöf og þjónustu safnsins á komandi árum“, segir Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar.

Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar færði formanni menningar- og ferðamálanefndar fyrsta skírteinið.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2