Starfið í Bókasafni Hafnarfjarðar er komið aftur í gang ásamt almennum klúbbum og reglulegum uppákomum og viðburðum, s.s. handverkshópum og opnum sögustundum, að sögn Unnar Helgu Möller hjá Bókasafninu.
Dagblöð og kaffi eru ekki enn á boðstólum, en hún segist vonast til að geta hafið þá þjónustu aftur sem allra fyrst.
Sumarlestur með vikulegum verðlaunum
Sumarlestur hefst mánudaginn 1. júní, á öðrum degi í hvítasunnu, og hægt er að skrá sig á bókasafninu frá og 2. júní. Þar geta litlir lestrarhestar einnig nálgast lestrardagbækur og bókaumsagnablöð sem má skila inn til vikulegra verðlauna. Lestrardagbækur má líka nálgast hjá bekkjarkennurum í grunnskólum og á frístundaheimilum í sumar.
Starfsmenn barna- og unglingadeildar verða með sérstaka ráðgjöf milli klukkan 15 og 17 þann 2. júní til að aðstoða við val á lestrarefni fyrir sumarið.
Öll börn fá ókeypis bókasafnskort og eru velkomin á safnið í fylgd forráðamanns til að fá slíkt.
Ókeypis námskeið í forritun
Skráning er enn í gangi á ókeypis námskeið í forritun fyrir börn og unglinga, sem verða 11. og 18. júní n.k., hið fyrra fyrir unglinga í Python forritun, og hið seinna fyrir börn í leikforritunarmálinu MakeyMakey.
Sögustundir í leikskólum
Nýlega hefur safnið sent starfsfólk í leikskóla bæjarins til að viðhalda sögustundum eftir tilslökun samkomubanns, en samtals hefur verið lesið fyrir 943 börn síðan verkefnið hófst, og við heimsótt samtals þrettán leikskóla. Opnar sögustundir munu vera á safninu í sumar, bæði á íslensku og pólsku, með reglulegu millibili og verða auglýstar á vef safnsins.