Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjaðar voru haldnir í Víðistaðakirkju í byrjun desember. Fjölmennt var á tónleikunum, Víðistaðakirkja var nánast fullsetin á þessu fallega vetrarkvöldi og greinilegt að margir kjósa að eiga hátíðlega stund á aðventunni með því að hlusta á söng Kvennakórs Hafnarfjarðar.
Lagaval tónleikanna var fjölbreytt og hátíðlegt og gaman er að geta þess að kórinn söng nú í fyrsta sinn lagið Myrkur og mandarínur í nýrri útsetningu sem Vilberg Viggósson skrifaði fyrir kvennakór. Guðrún Gunnarsdóttir söng einsöng á tónleikunum en einnig komu fram hljóðfæraleikararnir Jón Rafnsson og Guðrún Arnarsdóttir, auk Antoníu Hevesi sem um árabil hefur leikið undir með kórnum.
Á næsta ári fagnar kórinn 25 ára afmæli sínu og má því búast við að meira verði viðhaft en venjulega á vortónleikum kórsins í lok apríl. Í maí tekur kórinn svo þátt í Landsmóti íslenskra kvennakóra sem að þessu sinni verður haldið í Reykjavík.