fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
HeimFréttirMenning og mannlífSteingrímur Eyfjörð bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2017

Steingrímur Eyfjörð bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2017

Fær eina milljón kr. frá Hafnarfjarðarbæ

Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2017. Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar kallaði eftir tilnefningum til bæjarlistamanns snemma árs og bárust fjölmargar tilnefningar. Mat nefndarinnar var að árið 2017 yrði myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð bæjarlistamaður Hafnarfjarðar.

Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar og Steingrímur Eyfjörð, bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2017

Steingrímur Eyfjörð er fæddur árið 1954, hann nam myndlist á Íslandi og í Hollandi. Steingrímur hefur í verkum sínum farið inn á merkingarsvið heimspeki, vísinda, félags- og mannfræði þar sem viðfangsefni verkanna geta verið um jafnólíka hluti og trúmál, pólitík, dægurmenningu, íslenska þjóðmenningu og sögu. Verk hans snúast oft um það sem kalla má nútíma þjóðsögur, sem sækja efnivið sinn í dulspeki, samsæriskenningar og ýmiskonar hjávísindi. Þessar sögur endurspegla margbreytileika þekkingarleitar mannsins og tilraunir til að skilgreina og skoða veruleikann út frá fjölbreyttara sjónarhorni en hefðbundin vísindi bjóða upp á.

Verk í frásagnarstíl

Teikningin er fyrirferðarmikill tjáningarmáti í verkum Steingríms og í þeim sést náinn sjónrænn skyldleiki teikningarinnar við ritlistina en verk hans eru oft í frásagnarstíl. Í verkum Steingríms má finna ástríðufulla og fordómalausa rökræðu þar sem fegurðin og hið ljóðræna við alla sköpun eru snertifletir. Þau eru eins konar ferðalag eða könnun sem beinist inn á við, þar sem hver og einn verður að máta sig við ákveðnar aðstæður. Oft og tíðum er um eins konar leik með listhugtakið að ræða þar sem framvinda verksins, sköpunarferlið sjálft, er sýnilegur hluti þess. Verk Steingríms vekja áleitnar spurningar um  vísindi, trúmál, pólitík, íslenska þjóð- og dægurmenningu. Í þessu ferli öllu má finna trú á eðlisgreind einstaklingsins í samfélagi sem leitast við að móta menn í einsleitt form.

Ferill sem spannar fjóra áratugi

Fjölbreyttur ferill Steingríms spannar  fjóra áratugi, hann hefur sýnt verk sín hérlendis og erlendis bæði einn og með öðrum. Hann hefur sinnt kennslu og verið virkur í félagsstarfi myndlistarmanna. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007. Steingrímur hefur búið í Hafnarfirði undanfarin fimm ár, í janúar var einkasýning á verkum hans í Hafnarborg sem bar nefnið Kvenhetjan. Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar hlýtur greiðslu að upphæð 1.000.000 kr sem hvatningu til áframhaldandi sköpunar og virkni.

(fréttatilkynning frá Hafnarfjarðarbæ)

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2