Á hverju ári koma saman hlauparar úr flestum hlaupahópum höfuðborgarsvæðisins og jafnvel víðar að og hlaupa íklæddir bleikum fötum. Það er Hlaupahópur FH sem stendur fyrir hlaupinu og félagar hópsins bjóða upp á glæsilegt kökuhlaðborð að hlaupi loknu.
Hafa safnað 1,8 milljónum kr.
Kallað er eftir frjálsum framlögum til styrktar góðu málefni í þágu krabbameinssjúkra og hefur hópurinn m.a. styrkt Ljósið, Kraft og fleiri félög og safnað og gefið samtals tæpar 1,8 millj. kr.
Í ár var safnað fyrir einn hlaupafélagann, sem barist hefur hetjulega við krabbamein, Þórunni Unnarsdóttur sem nýlega hefur getað hafið hlaup með hópnum að nýju. Er þetta í annað sinn sem hlaupahópurinn styrkir hlaupafélaga sem berst við krabbamein.
Bleika hlaupið var að þessu sinni haldið 5. október í slagveðursrigningu og var ekki búist við góðri þátttöku. Það var öðru nær og greinilega ætluðu hlauparar ekki að láta veðrið hindra sig í að taka þátt í þessu styrktarhlaupi. Kökuborðið svignaði undan kræsingum og hlaupararnir komu rennblautir til baka úr hlaupinu og nutu glæsilegra veitinganna.
Söfnunarféð var afhent á 90 ára afmælisdegi FH í síðustu viku en alls söfnuðust 350 þúsund kr. Fékk Þórunn stóra ávísun frá hlaupafélögunum en flestir hlaupafélagarnir voru þá að halda í ferðalag til Ítalíu þar sem þeir tóku þátt í stóru fjallahlaupi.