fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífÞar sem hraunið ædd´ í eldsins roða..

Þar sem hraunið ædd´ í eldsins roða..

Ljóð Halldórs Halldórssonar

„Þegar ég sá bjarma og gosstróka á Reykjanesi, minnti mig að ég hefði sett saman vísu um tilurð hraunsins hér innan um og í kringum Hafnarfjörð,“ segir Hafnfirðingurinn Halldór Halldórsson í samtali við Fjarðarfréttir.

Halldór Halldórsson

Hann segist vera einn af þeim sem man lítið eftir þeim kveðskap sem hann hefur búið til en hann mundi eftir lokalínunni. „Það kom í ljós að ég hafði sent vísurnar Jóni Kristni fyrrum söngstjóra Þrasta, með það fyrir augum að finna kannski lag við fyrirbærið! Með lokalínuna að vopni fann Jón Kristinn ljóðið fyrir Halldór og sendi honum til baka.“

Leikur alda létt um sker og boða,
lítil bára kyssir hrjúfa strönd,
þar sem hraunið ædd´ í eldsins roða,
ógnarelfur ruddu hrjóstrug lönd.

Brimið skar í hraunið víkur, voga.
Voldug klufu gullin ránarsverð.
Furðusmíði, fædd í jarðarloga,
í fjöruborði luku sinni ferð.

Hraunaborgir líkt og veginn varða,
vernda sprota lífs um úfna jörð.
Þar sem sjá má grösug tún og garða,
gefur nú að líta Hafnarfjörð.

Á þessu skjáskoti af þrívíddarkorti ÍSOR má sjá jarðlög í Hafnarfirði. Græni liturinn sýnir grágrýtisfláka en bleiki liturinn sýnir um 2400 ára hraun sem rann úr Búrfelli og þekur vesturbæinn og stóran hluta Garðabæjar. Vestur af Hvaleyrinni má sjá Skúlatúnshraunið sem rann fyrir um 7000 árum en yfir það rann Hellnahraun árið 950 og er þar sem Vellirnir eru og rann það nær alveg að Ástjörn. Í Straumsvík rann svo Kapelluhraun 1151-1188. Heimild: jardfraedikort.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2