fbpx
Miðvikudagur, janúar 22, 2025
HeimFréttirMenning og mannlífUm 170 fermingarbörn í Fríkirkjunni og fjölgar stöðugt

Um 170 fermingarbörn í Fríkirkjunni og fjölgar stöðugt

Fermingarbörn utan safnaðarins sækja í fermingarfræðsluna

Fríkirkjan í Hafnarfirði starfar í elstu kirkjunni í Hafnarfirði, kirkju sem nýr söfnuður byggði á rúmum þremur mán­uðum árið 1913.

Oft hefur verið talað um hana sem litlu sætu trékirkjuna og vissulega er kirkjan ein minnsta kirkjan í bænum en söfnuðurinn er sá fjölmennasti og einn af þeim söfnuðum sem fjölgar mest í á landinu öllu.

Farsælt starfs prestanna sr. Einars Eyjólfs­­sonar og fyrrum fermingarbarns hans, Sigríðar Kristínar Helgadóttur hefur átt stóran þátt í velferð safnaðarins sem hefur dregið að sér fólk víðs vegar að.

Sr. Einar Eyjólfsson og sr. Sigríður Kristín Helgadóttir leiða fermingarhóp til kirkju. – Ljósm.: Guðni Gíslason

Fermingarbörnum fer sífellt fjölgandi og eru að sögn sr. Einars nú um 170 sem sækja fermingarfræðslu í kirkjunni. Fermingarstarfið hefur um langt skeið verið vinsælt meðal unglinganna enda fer þar saman góður fróðleikur og gleði.

Fermingarundirbúningur fyrir ferm­ingar í vor er nýhafinn og í Fríkirkj­­unni markar sólarhringsverð á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni upphaf ferðarinnar, þar sem vel hefur verið tekið á móti krökkunum í glæsilegu umhverfi.
Að sögn Einars er engin formleg fræðsla í ferðinni en markmiðið er að börnin kynnist og að prestar og starfs­fólk kynnist krökkunum sem verða svo hispurslaus í þessu nýja umhverfi.
Vegna stærðar hafa verið farnar þrjár ferðir á Úlfljótsvatn og eru fermingar­börn úr 2-3 skólum saman hverju sinni.

Klifurturninn á Úlfljótsvatni var vinsæll

Segir Einar að það sé í raun farið í gamaldags útilegu þar sem allt er heimatilbúið. Sr. Sigríður sér um alla eldamennsku, farið er í fjölbreytta leiki og þrautir og er klifurturninn geysilega vinsæll. Segir Einar að börnin upplifi þarna myrkrið í næturleik og varðeldi að kvöldi og gleðina í vatnasafaríi. Tveir fyrrum fermingardrengir úr Fríkirkjunni, skátabræðurnir Jakob og Vignir Guðnasynir tóku á móti hópnum og sáu um varðeld og leiki og var mikil ánægja með þeirra framlag.

Einar segir þessar ferðir virkilega ánægju­legar og sérstaklega ánægjulegt að fá með sjálfboðaliða sem koma ár eftir ár til að aðstoða. Aðspurður um fermingarfræðsluna í ferðunum segir Einar að hún felist í þessum ferðum í því að krakkarnir fái góð tækifæri til að spyrja.

Enginn lét rigningu á sig fá í vatnasafaríinu.

Fríkirkjan er sjálfstæður söfnuður sem byggir á sama trúarlega grunni og Þjóðkirkjan. Hann nýtur því ekki framlaga frá ríkinu en fær hluta þeirra sóknargjalda sem innheimt eru nú með sköttum en söfnuðurinn innheimti sjálfur upphaflega.
Í dag eru um 70 fermingarbörn sem skráð eru í fermingarundirbúning í Fríkirkjunni ekki skráð í Fríkirkjuna en það er talsvert hagsmunaatriði fyrir Fríkirkjuna að þeir sem njóta þjónustu presta hennar eða safnaðarstarfsins á annan hátt séu skráðir í söfnuðinn sem fær þá safnaðargjöldin til sín. Þó hefur ekki verið gerð krafa um að þeir sem sækja þjónustu hennar geri það. Þetta hefur þó þýtt aukið álaga á presta og starfsfólk kirkjunnar.

1. janúar sl. voru 6.982 einstaklingar skráðir í Fríkirkjuna í Hafnarfirði og hafði þá fjölgað um 33% á síðustu 10 árum.

Stemmning í myrkrinu

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2