Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi við lagningu frárennslislagna frá Skarðshlíð. Víða hefur óraskað hraun verið brotið upp en framkvæmdirnar voru taldar það nauðsynlegar að þær réttlættu raskið.
Hins vegar er rask á svæðinu sunnan Ásvallalaugar sem er á vatnasvæði Ástjarnarinnar, á því sem nefnist Grísanesflatir, miklu meira en ætla má að þurfi við lagningu frárennslislagna.
Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri hjá Hafnarfjarðarbæ segir í svari til Fjarðarfrétta að framkvæmdirnar tengjast Vallaræsisframkvæmdinni á þann hátt að uppgröftur er nýttur til að slétta út framtíðar æfingasvæði Hauka. „Æfingasvæðið er samkvæmt samþykktu deiliskipulagi og fyrir verkinu hefur verið gefið út framkvæmdaleyfi.“
Framkvæmdaleyfið var gefið út á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 2.9.2020 en ekki er hægt að sjá það í fundargerðinni. Í framkvæmdaleyfinu segir: „Skipulagsfulltrúi gefur út framkvæmdaleyfi til slóðagerðar og gróffyllingar á lóð Hauka við Ásvelli.“ Engir uppdrættir fylgja framkvæmdaleyfinu og því ekki hægt að gera sér grein fyrir því hvað í raun er verið að heimila.
Í deiliskipulagi frá 2004 er svæðið merkt sem æfingasvæði og í skýringartexta segir m.a.: „Nýtt æfingasvæði á suðurhluta svæðisins gerir ráð fyrir hækkun jarðvegs á því svæði um 1 meter auk þess að lækka þarf hæðir í jaðri Grísanes til þess að ná samfelldri æfingaflöt.“
Við endurskoðun á deiliskipulaginu 2010 kemur fram að ekki séu gerðar breytingar á þessu svæði en breytingar eru gerðar á teikningu.
Hins vegar eru þar merktar inn fornminjar en greinilega á röngum stað þar sem t.d. tóftir fjárhússins lendir undir knattspyrnuvelli skv. deiliskipulaginu.
Vestan við Grísanesið eru greinilegar hleðslur sem taldar eru vera af fjárhúsi.
Hjá Umhverfisstofnun fengust þær upplýsingar að nýjasta leyfi sem Hafnarfjarðarbær hafi sótt um er leyfi til að dýpka rás undir göngubrú við Ástjörn en stofnunin mun skoða málið nánar.
Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 segir m.a.: „Hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni sem eru 100 ára eða eldri teljast til fornleifa og eru sjálfkrafa friðaðar.“
15 metra friðhelgað svæði
Umhverfis friðaðar fornleifar er 15 metra friðhelgað svæði og gilda sömu reglur um það svæði og um fornleifarnar sjálfar. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á fornleifum og á friðhelguðu svæði umhverfis þær eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.
Við hleðslurnar vestan Grísanessins hefur hins vegar verið hlaðið upp miklum jarðvegi og stórgrýti allt að 8 metra frá hleðslunni.
Allt umhverfið þarna er mikið útivistarsvæði og gamlar mannvistarleifar víða. T.d. má sjá hleðslur, örskammt frá miklum uppfyllingum á Haukasvæðinu.
Óheimilt að raska vatnasvæði Ástjarnar
Svæðið sem nú er verið að fylla með efni er greinilega á vatnasviði Ástjarnar sem er friðlýst þó fyllingin sé utan friðlýsta svæðisins.
Í auglýsingu um friðlýsingu Ártjarnar frá 1978 segir að óheimilt sé að breyta náttúrulegu vatnsborði Ástjarnar, svo og að losa á vatnasvið hennar efni sem skaðað geta gróður og dýralíf á svæðinu.