fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMinnihlutinn í bæjarstjórn mun kæra samþykkt um knatthús í Kaplakrika til ráðuneytis

Minnihlutinn í bæjarstjórn mun kæra samþykkt um knatthús í Kaplakrika til ráðuneytis

Lagði fram 12 spurningar til meirihlutans á átakafundi í bæjarstjórn í gær

Átakafundur var í bæjarstjórn Hafnarfjarðrar í gær en fundurinn var boðaður að kröfu minnihlutans sem var ósáttur við málsmeðferð bæjarráðs í síðustu viku á stefnubreytingu um byggingu yfirbyggðs knattspyrnuvallar í Kaplakrika.

Hafði bæjarstjórn áður tekið ákvörðun um að Hafnarfjarðarbær greiddi að fullu og ætti fyrirhugað knatthús og var verkið boðið út. Tilboð voru langt umfram áætlun sem byggðist á upplýsingum frá FH en kostnaðaráætlun hafði ekki verið gerð.

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku, sem boðaður var með stuttum fyrirvara, var ákveðið að hætta við fyrirhugaðar framkvæmdir en þess í stað kaupi Hafnarfjarðarbær tjaldhúsin Risann og Dverginn og íþróttahúsið í Kaplakrika sem Hafnarfjarðarbær er þó þinglýstur eigandi að. Á FH að fá 790 millj. kr. fyrir eignirnar sem fari til byggingar hins umrædda knattspyrnuvallar sem FH beri fulla ábyrgð á að byggja.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins

Meirihluti í bæjarráði hafnaði að vísa málinu til aukafundar í bæjarstjórn en féllst síðar á að halda fund í bæjarstjórn þar sem málið var aftur tekið fyrir og samþykkt að nýju og nú með 6 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gegn 5 atkvæðum Samfylkingar, Bæjarlistans, Miðflokksins og Viðreisnar.

Í tilkynningu frá minnihlutanum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar er stórlega dregið í efa að ákvörðun sem keyrð var í gegn með meirihlutavaldi, fyrst í bæjarráði og svo bæjarstjórn, um að bærinn falli frá áætlunum um byggingu knatthúss í Kaplakrika og kaupi þess í stað aðrar eignir á svæðinu, standist sveitarstjórnarlög, sérstaklega hvað varðar 65. grein þeirra, um ábyrga meðferð fjármuna af hálfu kjörinna fulltrúa.

Guðlaug S. Kristjánsdóttir fulltrúi bæjarlistans og fv. forseti bæjarstjórnar

„Á aukafundi sem haldinn var að kröfu minnihlutans fyrr í dag lagði minnihlutinn fram fjölda spurninga sem varða meðal annars meint ólögmæti ákvörðunarinnar og ekki hafa fengist svör við.

Minnihlutinn mun kæra samþykkt meirihluta bæjarstjórnar í dag til samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis.

Fram hefur komið að áhöld eru um eignarhald mannvirkjanna sem meirihlutinn hyggst kaupa, en ljóst er á opinberum gögnum að bærinn á nú þegar 80% í einu húsanna. Einnig skortir á upplýsingar um verðmat fasteignanna, ástand húsanna og áhrif kaupanna á rekstur og fjárhag bæjarins. Sýnt hefur verið fram á umfangsmikla formgalla á öllum málatilbúnaði af hálfu meirihluta bæjarstjórnar, sem minnihlutinn telur brjóta í bága við ákvæði sveitastjórnarlaga (62. og 63. grein) um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og bindandi áhrif ákvarðana sem þar eru settar fram.“

Skoða má upptöku frá fundinum hér

12 fyrirspurnir lagðar fram:

Lögðu fulltrúar minnihlutaflokkanna fram 12 fyrirspurnir til fulltrúa meirihlutans og óskuðu svara á næstabæjarstjórnarfundi.

Vilja vita hvort stefnubreytingin standist sveitarstjórnarlög

Í 62. og 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um fjárhagsáætlanir og bindandi áhrif ákvarðana sem þar eru settar fram. Í 1. mgr. 63. gr. segir m.a. „Ákvörðun sem sveitarstjórn tekur skv. 1. mgr. 62. gr. um fjárhagsáætlun næstkomandi árs er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins.” Ennfremur segir í 2. mgr. sömu gr. “Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, útgjöldum, skuldbindingum eða tilfærslur milli liða í fjárhagsáætlun í þegar samþykktri áætlun. Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt. Á það einnig við þótt heildarútgjöld eða heildartekjur breytist ekki vegna samþykktar hans.”

Með vísan til fyrrgreindra ákvæða í sveitarstjórnarlögum óskum við undirritaðir bæjarfulltrúar svara um það hvort og þá hvernig breyting á áætlun vegna knatthúss í Kaplakrika telst standast ákvæði laganna.

Óskað er eftir að svör liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Farið er fram á þetta að gefnu tilefni þar sem þegar er búið að senda út dagskrá fyrir fund í bæjarráði á morgun, 16. ágúst, þar sem gera á viðauka og stofna starfshóp um framkvæmdina.

Óska eftir stefnu núverandi meirihluta við byggingu íþróttamannvirkja

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 10. maí 2017 var samþykkt að við endurskoðun á samstarfssamningi við ÍBH yrði til framtíðar gengið út frá 100% eignarhlut bæjarins í íþróttamannvirkjum sem byggð yrðu með þátttöku sveitarfélagins.

Á grundvelli þeirrar samþykktar og í kjölfar ákvörðunar sem tekin var í bæjarráði um stefnubreytingu varðandi uppbyggingu knatthúss í Kaplakrika óska undirritaðir bæjarfulltrúar eftir upplýsingum um stefnu núverandi meirihluta varðandi byggingu íþróttamannvirkja og hvort til standi að afturkalla samþykkt bæjarstjórnar frá 10. maí 2017.

Óskað er eftir að svör liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Óska svara við því hvernig ætlunin sé að mæta útgjöldum vegna meints gjafagjörnings

Sveitarstjórnarlög kveða meðal annars á um ábyrga meðferð  bæjarfulltrúa á fjármunum sveitarfélagsins en í 65 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir m.a. eftirfarandi: „Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og varðveita fjármuni með ábyrgum hætti…“

Eitt af þeim húsum á Kaplakrika sem nú er fyrirhugað að kaupa (íþróttahús) er talið hafa verið gefið FH af bæjarstjórn árið 1989. Samkvæmt samkomulagi sem gert var þar um var gert ráð fyrir að ýmis skilyrði yrðu uppfyllt frá og með árinu 2005, sem virðist síðan ekki hafa verið gert.  Hinn eiginlegi gjafagjörningur hefur þannig ekki farið fram og er húseignin enn færð sem eign bæjarsjóðs í bókum sveitarfélagsins, að 80% hluta. Ljóst er miðað við það að hinn meinti gjafagjörningur hefur ekki verið gjaldfærður í bókum bæjarins. Komi til þess nú að bærinn kaupi húsnæðið að fullu þarf m.a. að gjaldfæra gjafagjörninginn.

Gangi ætlan meirihlutans eftir í þessu máli óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta svara við því hvernig ætlunin sé að mæta útgjöldum vegna þessa meinta gjafagjörnings upp á hundruð milljóna króna í ársreikningi sveitarfélagsins 2018 þannig að ekki verði halli á rekstri A hluta bæjarsjóðs. Einnig er óskað svara við því hvernig þessi fyrirhuguðu kaup á eigin eign eru talin samræmast 65. gr. sveitarstjórnarlaga um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins.

Svara er óskað eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Óska eftir að minnisblað verði lagt fram

Samkvæmt upplýsingum frá fyrrverandi forseta bæjarstjórnar var utanaðkomandi lögfræðingur að vinna að minnisblaði varðandi framangreint samkomulag við FH í lok síðasta kjörtímabils fyrir sveitarfélagið.

Með vísan til þess óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir að þetta minnisblað verði lagt fram, eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Vilja svör um það hvort það sé í samræmi við 65. grein sveitarstjórnarlaga að greiða fullt verð fyrir Risann

Eftir því sem næst verður komist var í þeim forsendum sem lágu til grundvallar útreikningi á leiguverði sem bærinn hefur greitt til FH vegna leigu á tímum í Risanum, knatthúsi, á sínum tíma gert ráð fyrir að leigan myndi duga til að greiða rekstrarkostnað vegna knatthússins og afborganir og vexti af lánum sem tekin voru vegna byggingar húsnæðisins, á umsömdum leigutíma.

Með vísan til þessa er óskað eftir því að endurskoðandi bæjarins verði fenginn til að sannreyna þessar upplýsingar. Reynist þær réttar óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar svara meirihlutans á því hvort hann telji réttlætanlegt og hvort það sé í samræmi við gr. 65 í sveitarstjórnarlögum um ábyrga meðferð fjármuna að greiða nú FH (knatthúsum) fullt verð fyrir Risann og þá í reynd fjármagna húsið í annað skipti.

Óskað er eftir að svar við fyrirspurninni verði lagt fram eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Óska eftir greiningu á rekstrarreikningum FH-knatthúsa ehf.

Með vísan til 65. gr. sveitarstjórnarlaga óska undirritaðir bæjarfulltrúa minnihluta bæjarstjórnar eftir því að endurskoðandi bæjarins verði fenginn til að greina hvernig leigugreiðslum frá bænum vegna Risans hefur verið ráðstafað frá upphafi leigutímans.  Í því sambandi verði gerð ítarleg greining á rekstrarreikningum FH-knatthúsa ehf. frá upphafi.

Óskað er eftir að greiningin liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Óska eftur upplýsingum um skuldir sem hvíla á knatthúsum FH

Í þeim viðræðum sem fram fóru við forsvarsmenn FH á síðasta kjörtímabili varðandi knatthús kom fram að umtalsverðar skuldir hvíla á knatthúsunum sem nú er gert ráð fyrir að kaupa og greiða fyrir að fullu.

Með vísan til þess óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir nákvæmum upplýsingum um hversu háar þessar skuldir eru samtals og hvernig FH hyggst standa undir greiðslu afborgana og vaxta vegna þeirra.  Jafnframt er óskað svara við því hvort gert sé ráð fyrir að bærinn leigi tíma af FH í nýja húsinu.  Ef svo er, hvað er gert ráð fyrir að greitt verði mikið fyrir þá tíma?

Óskað er eftir að upplýsingarnar verði lagðar fram eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Óskað eftir staðfestingu á að FH hafi gert upp við verktaka

Á undanförnum árum hefur FH tekið að sér ýmsar framkvæmdir á athafnasvæði FH fyrir hönd bæjarins. Um er að ræða m.a. flýtiframkvæmdasamning, greiðslu á sl. ári vegna efnistöku af stæði væntanlegs knatthúss ofl.  Fyrir þetta hefur bærinn greitt að fullu til FH. Mikilvægt er að áður en gengið verður til frekari samninga við FH liggi fyrir hvort félagið hafi gert upp að fullu við þá verktaka sem unnið hafa vegna framangreinda verka.

Með vísan til þessa óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir því að endurskoðandi bæjarins verði fenginn til að sannreyna að engar skuldir séu vegna þessara framkvæmda.

Spurt um verð- og ástandsmat íþróttahúsa

Þar sem engin gögn lágu fyrir fundi bæjarráðs þann 8. ágúst sl. þar sem ákvörðun um breytt áform varðandi byggingu knatthúss í Kaplakrika var tekin óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir verðmati (og ástandsmati?) á íþróttamannvirkjum í Kaplakrika þeim er um ræðir í rammasamkomulaginu og til stendur að bærinn kaupi.

Svör við fyrirspurninni liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Spurt um kærumál vegna útboðs

Á fundi bæjarráðs þann 8. ágúst sl. þar sem ákvörðun var tekin um breytt áform varðandi byggingu knatthúss í Kaplakrika kom fram að niðurstaða í útboði vegna framkvæmdanna hafi verið kærð og kæruferli sé í gangi. Undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar óska eftir upplýsingum um stöðu bæjarins og framkvæmda í Kaplakrika gagnvart þeirri kæru og hvort heimilt sé að fara í innkaupaferli vegna knatthússins áður en kærumálið er útkljáð.

Óskað er eftir að svör liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Spurt um yfirlýsingar bæjarstjóra

Vegna yfirlýsinga bæjarstjóra í Morgunblaðinu laugardaginn 11. ágúst sl. óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar skýringa á ummælum bæjarstjóra þar sem hún segir það tilviljun að þetta mál væri tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 8. ágúst sl. þegar til hans var einmitt boðað sérstaklega vegna málsins.

Óskað er eftir að svör við fyrirspurninni liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

Spurt um flýtimeðferð

Í ljósi þess hversu skyndilega boðað var til fundar bæjarráðs hinn 8. ágúst sl. með minnsta löglega fyrirvara á grundvelli þess að flýta þyrfti málinu óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir gögnum sem varpað geta ljósi á hina óvæntu framvindu í málinu sem kallaði á slíka flýtimeðferð að ekki mátti bíða þess að ná bæjarstjórn saman.

Óskað er eftir að gögn liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

  • Adda María Jóhannsdóttir
  • Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
  • Jón Ingi Hákonarson
  • Sigrún Sverrisdóttir

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2