fbpx
Föstudagur, janúar 10, 2025
target="_blank"
HeimFréttirMisskilningur bæjarbúa eða röng aðferðarfræði bæjarstjórnar?

Misskilningur bæjarbúa eða röng aðferðarfræði bæjarstjórnar?

Athugasemdafrestur framlengdur til 4. október vegna krafna íbúa

Það er komin upp all sérkennileg staða í starfi að nýju deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar.

Eftir að þrjár arkitektastofur höfðu verið fengnar til að koma með hugmyndir að endurbættum miðbæ Hafnarfjarðar sem undirbúning að opinni arkitektasamkeppni um deiliskipulag miðbæjarins samþykkti skipulags- og bygg­ingarráð 9. febrúar 2018 eftirfarandi tillögur að framgangi verksins:

  • Fyrirhugað er að eftir kynningu í ráðum, verði haldinn almennur(ir) kynningarfundur(ir) fyrir bæjarbúa.
  • Hugmyndavinna kynnt í bæjar­blöðum.
  • Opnuð verði heimasíða, þar sem gögn liggja frami og að bæjarbúum gefist kostur til að koma á framfæri eigin hugmyndum og tillögum.
  • Ráðinn verði verkefnastjóri verkefnisins.
  • Úr framkomnum hugmyndum og tillögum verði unnin samkeppnislýsing.
  • Opin samkeppni í samræmi við reglur AÍ.
  • Unnin aðalskipulagsbreyting og deiliskipulag byggt á niðurstöðu samkeppninnar.

Kúvending eftir samþykktan feril

Ekkert gerðist í langan tíma þar til 28. mars 2019, um ári síðar, var skipaður starfshópur sem hafði það að hlutverki m.a. að vinna og koma með tillögu að aðferðarfræði við áframhaldandi vinnu við skipulag miðbæjarins. Þá var hópnum ætlað, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að móta stefnu hvort unnið verði að opinni samkeppni um deiliskipulagið eða hvort unnið verði áfram á grundvelli þeirrar vinnu sem liggur fyrir.

Hugmyndavinna eða samkeppni?

Hvergi er starfshópnum ætlað að velja á milli tillagna arkitektastofanna enda voru þær hugmyndavinna sem Hafnarfjörður keypti til að kalla fram ólíkar hugmyndir til að vinna úr.

Þar sem hópurinn valdi eina stofuna virðist hópurinn hafa litið á verkin sem samkeppni en ekki opna hugmyndavinnu og síðan hefur tillögum hinna stofanna verið haldið frá bæjarbúum og hefur Hafnarfjarðarbær t.d. neitað að afhenda Fjarðarfréttum þær. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Ætla má að í tillögum hinna stofanna séu áhugaverðar hugmyndir sem ættu að koma fyrir sjónir almennings.

Hver er að misskilja?

Formaður starfshópsins og formaður bæjarráðs segir í grein í Fréttablaðinu fyrir skömmu að misskilnings hafi gætt í umræðunni. Þar og enn skýrar í tilkynningu á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar er tillögum Trípólí í raun hafnað sem hluta af vinnu eða tillögum hópsins þó það komi sýrt fram í drögum að Tillögur starfshóps um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar (Reyndar heitir skjalið Drög að skýrslu..) en þar segir fremst undir yfirskriftinni Tillögur starfshópsins:

„Eftir að hafa skoðað þau gögn sem lágu til grundvallar við vinnu starfshópsins er það niðurstaða hans að Trípólí vinni áfram að deiliskipulagi miðbæjarins á grundvelli þeirrar vinnu sem stofan skilaði inn.“ [feitletrun Fjarðarfrétta]

Það að íbúar skoði tillögur Trípólí og gagnrýni virðist því alls ekki vera neinn misskilningur þar sem starfshópurinn hefur valið hugmyndavinnu einnar stofunnar og vill að hún vinni áfram að deiliskipulagi á grundvelli þeirrar vinnu.

Fjölmennur íbúafundur

Þegar tillögur starfshópsins voru lagðar fram voru þær einungis kynntar á heimasíðu bæjarins og sagt frá þeim á Facebooksíðu hans. Engar kynningar voru boðaðar, engar auglýsingar í bæjarblaði og skv. upplýsingum bæjarfulltrúa var upphafleg hugmynd að gefa bæjarbúum aðeins 10 daga til að gera athugasemdir við skýrsluna/tillögurnar. Það var þó lengt í 30 daga en sem fyrr sagt ekki auglýst eins og venja er með skipulagsmál.

Mikil viðbrögð voru við grein um málið í Fjarðarfréttum 28. ágúst og gagnrýnisraddir urðu mjög háværar. Virðist þá fyrst hafa komið upp hugmyndir um íbúafund sem haldinn var 3 dögum áður en athugasemdarfrestur rennur út. Var fundurinn í gær í Bæjarbúi og nær fullt hús.

Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi.

Á fundinum fór Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrú ítarlega yfir þróun miðbæjarskipulagsins frá 1962 og kynnti að lokum þá vinnu sem arkitektastofurnar þrjár unnu og þá sérstaklega tillögur Trípólí. Var kynning hans mjög skilmerkileg og vakti upp margar spurningar viðstaddra.

Fjölmargir höfðu spurningar um skipulagsvinnuna.

Það var sammerkt með nær öllum fyrirspyrjendum að þeir gagnrýndu þær hugmyndir sem komu fram í hugmyndum Trípólí, töldu byggingarmagn of mikið og að ekki væri nægilega hugað að sérstöðu miðbæjar Hafnarfjarðar. Þá var vinnuferillinn einnig gagnrýndur og samráðsleysi við íbúa.

Ágúst Bjarni Garðarsson formaður starfshópsins

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður starfshópsins kynnti tillögur/skýrslu hans og benti m.a. á að hópurinn taldi að endurskoða þyrfti hvort núverandi byggingarheimildir leyfðu of háar byggingar. Ítrekaði hann að hugmyndir arkitektanna væru aðeins hugmyndir og t.d. hugmyndir um langfyllingar hafa ekki fallið í góðan jarðveg hjá hópnum.

Í glærukynningu kom fram að skv. erindisbréfi átti hópurinn að koma með tillögu að áframhaldandi vinnu við skipulag miðbæjarins. Í erindisbréfinu segir hins vegar að hópurinn skuli vinna að og koma með tillögu að aðferðarfræði við áframhaldandi vinnu við skipulag miðbæjarins. Var honum bent á þetta misræmi og að á þessu væri mikill munur. Sagði hann að orðið hafi fallið út en svaraði engu um misræmið.

Ekki áfangaskipt skipulag

Í skýrslunni er lögð til áfangaskipting en óljóst er hvort átt er við deiliskipulagsvinnuna eða uppbyggingu skv. væntanlegu deiliskipulagi. Aðspurður sagði Ágúst Bjarni að þarna væri átt við uppbygginguna skv. væntanlegu deiliskipulagi.

Opin samkeppni kalli ekki fram nýjar hugmyndir!

Í upphafi var lagt upp með að farið yrði í opna samkeppni um nýtt skipulag miðbæjarins og var vinna arkitektastofanna þriggja ætluð sem undirbúningur fyrir hana en þegar koma að skipun starfshópsins þá var honum gert að móta stefnu hvort farið yrði í samkeppni eða ekki.

„Var starfshópurinn sammála þeirri niðurstöðu sem fram kemur í skýrslu Teikn að óvíst er hvort betri tillögur en þær sem liggja fyrir komi út úr samkeppni.“

Þessi hluti í skýrslunni vakti mikinn hlátur meðal viðstaddra á fundinum þegar hann var kynntur og fannst fólki sem ein arkitektastofa gæti ekki sett fram slíka fullyrðingu og mátti líkja þetta við þá fullyrðingu sem fyrir löngu koma fram að búið væri að finna allt upp sem hægt væri að finna upp.

Með þá vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning deiliskipulagsvinnu að leiðarljósi, þó illa hafi verið staðið að því að kalla fram vilja bæjarbúa, þá má ætla að farsælt væri að kalla eftir útfærðum tillögum með opinni arkitektasamkeppni og má búast við góðri þátttöku í samkeppni um deiliskipulags eins stærsta sveitarfélags á Íslandi.

Athugasemdarfrestur framlengdur til 4. október

Háværar kröfur komu fram á fundinum að athugasemdafrestur yrði framlengdur þar sem aðeins væru 3 dagar eftir að núverandi athugasemdafresti þegar fyrsti kynningarfundur væri haldinn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag að fresturinn verði framlengdur til föstudagsins 4. október nk.

Hvað kemur fram í skýrslunni/tillögunum?

Mikilvægt er að bæjarbúar lesi skýrsluna sem sjá má hér.

Starfshópinn skipuðu: Ágúst Bjarni Garðarsson fulltrúi meirihluta, Lovísa Björg Traustadóttir fulltrúi meirihluta, Kári Eiríksson fulltrúi íbúa, Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi minnihluta, Guðmundur Bjarni Harðarson, fulltrúi fyrirtækja og Sigríður Margrét Jónsdóttir fulltrúi MsH en hún er ekki á myndinni.

Hér er reynt er að draga fram það helsta sem kemur fram í skýrslunni:

Niðurstaða starfshópsins er að Trípólí vinni áfram að deiliskipulagi miðbæjarins á grundvelli þeirrar vinnu sem stofan skilaði inn. [Trípólí arkitektar vinni áfram skv. forskrift starfshópsins að deiliskipulagi miðbæjarins]

  • Skipulagsmörk skulu vera óbreytt.
  • Strandgötu er hjarta bæjarins.
  • Miðbæ þarf að efla enn frekar sem einn af helstu kjörnum verslunar, þjónustu og menningar.
  • Mikilvægt er að varðveita þá miklu sögu sem Hafnarfirði fylgir og miðbæ hans.
  • Endurskoða þarf hvort byggingarheimildir leyfi of háar byggingar m.v. aðliggjandi byggð og er þá sérstaklega horft til þess að vernda ásýnd og hjarta Hafnarfjarðar.
  • Ef götumynd er einsleit og með fáum opnunum og lítilli þjónustu á jarðhæð, þá hraða gangandi vegfarendur för, en þar sem þjónusta er tíðari og götuhliðar iða af lífi, hægja vegfarendur á sér og taka þátt í að búa til betri bæjarbrag.
  • Það má segja að réttur almennings til að njóta lifandi aðalgötu sé mikilvægari en réttur húseigenda til að nýta rými við aðalgötu á þann hátt að það drepi götulífið.
  • Lögð skal áhersla á að nýbyggingar í miðbæ Hafnarfjarðar virði fíngert yfirbragð byggðarinnar í kring, í stað þess að leita hámarks nýtingar á byggingarreitum.
  • Mikilvægt er að halda í reisuleg eldri hús í miðbænum og stuðla að viðhaldi og endurbótum á þeim. Huga þarf að stuðningi til viðhalds og endurgerða húsa sem hafa áhrif á heildarsvipmót götumyndar og endurgerða húsa sem hafa áhrif á heildarsvipmót götumyndar.
  • Fjarðargata er tenging umferðar við önnur svæði Hafnarfjarðar og við uppbyggingu hennar þarf að huga að sjónásum út mót opnu hafi.
  • Starfshópurinn leggur mikla áherslu á að í miðbænum verði áfram öflug samgöngumiðstöð.
  • Kannski er óráðlegt að einblína á bílakjallara í stað einhvers konar blöndu sem ef til vill gæti innihaldið bílastæðahús. Ef þörfin minnkar, er auðveldara að finna slíku húsi nýtt hlutverk, en ef um kjallara er að ræða. Nauðsynlegt er að tryggja gott aðgengi að skammtímabílastæðum.
  • Mikilvægt er að hafa skýra framtíðarsýn sem veitir heildarmynd og yfirsýn yfir næstu mögulegu vaxtarskeið Hafnarfjarðarbæjar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2