Mjög alvarlegt umferðarslys varð á Reykjanesbrautinni undir göngubrúnni á milli Hvammahverfisins og Áslands stuttu fyrir kl. 13 í dag. Skullu þar saman lögregluhjól í forgangsakstri og lítil fólksbifreið. Áreksturinn var greinilega mjög harður.
Mikill viðbúnaður var af hálfu lögreglu, sjúkra- og slökkviliðs og tók þó nokkurn tíma og að undirbúa lögreglumanninn til flutnings í sjúkrabíl. Langan tíma tók að ná ökumanni úr bifreiðinni og var hann fluttur í burtu með sjúkrabíl um hálftíma eftir að slysið varð.
Slysið varð rétt sunnan við þann stað þar sem Reykjanesbrautin þrengist í tvær akreinar, á mjög varasömum kafla þar sem brautin sveigir til hægri.
Lögreglumaðurinn á mótorhjólinu var að fylgja sjúkrabíl í forgangsakstri frá Keflavík þar sem umferðarslys hafði orðið á Reykjanesbraut.
Reykjanesbrautin var strax lokuð fyrir allri umferð á meðan og ökumönnum vísað í gegnum bæinn eða um Áslandið.