Stjórnendur Hjalla hafa lýst miklum áhyggjum vegna þeirrar hættu sem skapast hafi við skátaheimilið, þar sem Hjalli leigir aðstöðu, vegna framkvæmda við nýjar íbúðir. Hefur bílastæðið við skátaheimlið verið notað sem aðkoma allra véla og tækja að byggingarsvæðinu með tilheyrandi hættu og sóðaskap.
Stjórnendur skólans voru í sambandi við fulltrúa sveitarfélagsins og verktakann varðandi þá hættu sem skapast hefur af vinnusvæðinu við skátaheimilið. Óskað var eftir viðbrögðum svo öryggi barna yrði tryggt.
Brugðist var við og hefur vinnusvæðið verið girt af alls staðar nálægt börnum.
Síðastliðinn föstudag var alveg búið að breyta allri aðkomu að svæðinu. Öryggi barna hefur því verið tryggt í nærumhverfi skólans.
Aðkoman í gegnum bílastæðið við skátaheimilið veldur hættu
8 og 9 ára börn í Hjalla hafa notað skátaheimilið sem heimakjarna, þar er frístund skólans og þangað fara öll börn reglulega í heimsóknir í salinn á söngfundi.
Höfðu stjórnendur skólans mikla áhyggjur af öryggi barnanna.
Fljótlega í haust þegar framkvæmdir voru nýlegar byrjaðar var ákveðið að nota ekki lengur svæðið fyrir framan húsið. Starfsfólk fylgir börnum ávallt á svæðið fyrir aftan húsið, út á Víðistaðatún eða á önnur svæði í nærumhverfi skólans.
Fulltrúar Skátafélagsins Hraunbúa ósáttir
Mikil óánægja er meðal forystufólks í Skátafélaginu Hraunbúum sem telur bæjarfélagið hafa skapað mikið óöryggi við skátaheimilið með því að hafa innakstur að tíu nýjum húsum í gegnum bílastæði við skátaheimilið, beint framan við aðalinnganginn.
Beinist óánægjan einnig að því að bæjaryfirvöld láti eins og bílastæðin tengist ekkert skátaheimilinu af því að þau séu á bæjarlandi. Það hafi verið ákvörðun bæjaryfirvalda á sínum tíma að hafa bílastæðin utan lóðar en hafi að sjálfsögðu átt að þjóna skátaheimilunu enda eru engin bílastæði innan lóðarinnar. Frásagnir um að leita ætti annarrar aðkomuleiðar að húsunum hafi verið marklausar og samráð við skátafélagið ekkert.