Á nýju væntanlegu byggingarsvæði í Áslandi 4, byggðinni innan við Ásland 3 og meðfram Ásvallabrautinni og niður að Skarðshlíð, liggja þrjár raflínur. Það er Hnoðraholtslína og tvær Hamraneslínur en fyrirhugað var að þær myndu víkja þegar ný Lyklafellslína og Suðurnesjalína verða lagðar.
Hafnarfjarðarbær óskaði eftir því að Hnoðraholtslína yrði sett í jörð frá mastri 6 að mastri 10, eða um 1 km leið. Þetta er til að rýma til fyrir fyrirhugaðri byggð norðan Ásvallabrautar.
„Í samræmi við reglur Landsnets tekur Hafnarfjarðarbær þátt í kostnaði við þetta þar sem línan er ekki að fullu afskrifuð og er gerður samningur um þetta við sveitarfélagið,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnet í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta.
„Verkið er þegar farið í gang og búið að bjóða út innkaup á strengjum og undirbúningur útboðs jarðvinnu í gangi. Reiknað er með að þetta verði unnið í sumar og haust og að hægt verði að rífa línuna á þessum kafla á þessu ári.“
Enn óvíst með Hamraneslínur
„Við erum að vinna að umhverfismati fyrir línuframkvæmdir í nálægð við þéttbýlismörk höfuðborgarsvæðisins. Í því felst m.a. að færa Hamraneslínur út fyrir skipulagða íbúabyggð Hafnarfjarðar í Áslandinu. Á þessu stigi er ekki ljóst hvaða leið verður farin, þ.e. hvort reist verður ný lína samhliða Búrfellslínu 3b og Hamraneslínur rifnar í kjölfarið eða ráðist í aðrar útfærslur. Eftir því sem liðið hefur á vinnu við umhverfismatið hefur útfærsla sem felur í sér að setja Hamraneslínur í jörðu innan Hafnarfjarðar orðið vænlegri kostur, en línan stæði þá áfram sem loftlína frá Hafnarfirði að tengivirki í Geithálsi um nokkurn tíma,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir.
Meðal bygginga sem eru í línustæðinu er fyrirhugaður leikskóli í hverfinu en nánar má sjá á myndinni að ofan hvar línurnar liggja. Hnoðraholstslínan er nær byggðinni.