Hópur nemenda Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði fór snemma á fætur í morgun til að taka þátt í 50 ára afmælishátíð evrópska einkaleyfasamningsins.
Þau voru þar í góðum félagsskap Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hans hátignar Willem-Alexander, konungs Hollands, Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fleiri.
Tilefni þess að nemendum Skarðshlíðarskóla var boðið að taka þátt í hátíðardagskránni er að þeir unnu til verðlauna í alþjóðlegri listaverkasamkeppni sem Evrópska einkaleyfastofan stóð fyrir í tilefni afmælisins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar veitti fulltrúum nemendahópsins viðurkenningarskjal í húsakynnum Hugverkastofunnar í morgun. Verðlaunaafhendingin var send út í beinni útsendingu til höfuðstöðva EPO í Munchen þar sem hún var liður í viðamikilli afmælisdagskrá.
Vinningsverkið Vinátta
Vinningsverkið frá Íslandi heitir Vinátta og var unnið í myndmennt veturinn 2019-2020 af öllum nemendum Skarðshlíðarskóla undir stjórn Hafdísar Baldursdóttur, myndmenntakennara.
Alls sendu 3612 nemendur í 56 skólum frá 19 löndum inn listaverk í keppnina, en þema hennar var tækni, listir og nýsköpun. Auk viðurkenningarskjalsins hljóta vinningsskólarnir 3.000 evrur, jafnvirði um 450.000 króna, til að nota við fræðslustarf um sjálfbærni í tengslum við tækni, listir eða nýsköpun.
Evrópska einkaleyfastofan
Ísland gerðist Ísland aðili að Evrópska einkaleyfasamningnum árið 2004. Aðildarríki samningsins eru alls 39 ríki í Evrópu og þau reka í sameiningu Evrópsku einkaleyfastofuna. Hugverkastofan á fulltrúa í fjölda nefnda og ráða á hennar vegum, m.a. fjármála-, laga- og tækninefndum sem og framkvæmdaráði. Forstjóri Hugverkastofunnar hefur verið varaformaður framkvæmdaráðsins frá árinu 2019 og var í árslok 2021 endurkjörin til næstu 3ja ára.
Fyrsta evrópska einkaleyfið var veitt af EPO árið 1980 fyrir tæki sem metur hvort að myntir sem settar eru í myntsjálfsala séu ófalsaðar. Síðan hefur EPO veitt yfir tvær milljónir einkaleyfa fyrir tæknilegar uppfinningar, sem margar hverjar hafa breytt heiminum, allt frá QR-kóðum og MP3-skrám að öryggiskerfum í bílum og bóluefnum. Í sumar var svo einu evrópsku einkaleyfi hleypt af stokkunum. Með því er hægt að sækja um eitt einkaleyfi sem gildir í 17 þátttökulöndum innan Evrópusambandsins, greiða eitt umsóknar- og endurnýjunargjald í einum gjaldmiðli, undir einu réttarkerfi.