fbpx
Föstudagur, janúar 17, 2025
HeimFréttirNotalegt að heimsækja Læk

Notalegt að heimsækja Læk

Lækur er athvarf fyrir einstaklinga með geðrænar áskoranir.

Markmið með starfseminni er að draga úr félagslegri einangrun, auka lífsgæði og efla félagslega og líkamlega vellíðan.

Lækur var opnaður að Hörðuvöllum 1 árið 2003 og þá voru það Hafnar­fjarðar­bær, Rauði krossinn og Svæðis­skrifstofa Reykjaness sem stóð að rekstr­inum. Starfsemin var flutt árið 2021 að Staðarbergi 6 og nýlega var þar opið hús þar sem bæjarbúum var boðið að koma í heimsókn.

Góð aðstaða er í Læk og andrúmsloftið hlýlegt.

Greinilegt er að hinn góði andi sem var á Hörðuvöllum hefur flust yfir á Staðarbergið en þar er notalegt að vera og fólkið sem þar kemur reglulega tók vel á móti fólki. Þarna var til sölu ýmis varn­ingur sem fólkið hafði sjálf gert, jafnvel rabbabarasulta úr garðinum en töluverð áhersla er lögð á að nýta garðinn og þar má finna ýmsar matjurtir auk þess sem þar hefur verið plantað ýmsum trjám til að gera umhverfið hlýlegra. Fjölbreytt dag­skrá er í boði þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, leikfimi, listsköpun og handverk. Hljóð­færi er á staðnum og tölvur og þvotta- og baðaðstaða.

Heimatilbúið og girnilegt enda rokseldust vörurnar.
Rabbabarasultan úr garðinum var sérstaklega vinsæl.

Í dag er það Hafnarfjarðarbær sem rekur Læk og Brynja Rut Vilhjálmsdóttir er forstöðumaður þar. Segir hún 8-15 koma að jafnaði á hverjum degi og um 1500 manns á ári. Segir hún fólk geti komið að vild og að þjónustan sé gjald­frjáls en í boði sé morgunverður, hádeg­is­verður og kaffi gegn vægu gjaldi.

Gestir gátu keypt ilmandi vöfflur með rjóma á vægu gjaldi.
Þorbjörg Guðmundsdóttir, Tobba, nýtir tímann vel og málar í Læk.

Á opna húsinu ilmaði húsið af kaffi og vöfflum en gestum bauðst að kaupa kaffi og vöfflur til styrktar starfinu í hús­inu.

Sigríður K. Skarphéðinsdóttir kom færandi hendi, stolt af barnabarni sínu, forstöðukonunni.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2