Lækur er athvarf fyrir einstaklinga með geðrænar áskoranir.
Markmið með starfseminni er að draga úr félagslegri einangrun, auka lífsgæði og efla félagslega og líkamlega vellíðan.
Lækur var opnaður að Hörðuvöllum 1 árið 2003 og þá voru það Hafnarfjarðarbær, Rauði krossinn og Svæðisskrifstofa Reykjaness sem stóð að rekstrinum. Starfsemin var flutt árið 2021 að Staðarbergi 6 og nýlega var þar opið hús þar sem bæjarbúum var boðið að koma í heimsókn.
Greinilegt er að hinn góði andi sem var á Hörðuvöllum hefur flust yfir á Staðarbergið en þar er notalegt að vera og fólkið sem þar kemur reglulega tók vel á móti fólki. Þarna var til sölu ýmis varningur sem fólkið hafði sjálf gert, jafnvel rabbabarasulta úr garðinum en töluverð áhersla er lögð á að nýta garðinn og þar má finna ýmsar matjurtir auk þess sem þar hefur verið plantað ýmsum trjám til að gera umhverfið hlýlegra. Fjölbreytt dagskrá er í boði þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, leikfimi, listsköpun og handverk. Hljóðfæri er á staðnum og tölvur og þvotta- og baðaðstaða.
Í dag er það Hafnarfjarðarbær sem rekur Læk og Brynja Rut Vilhjálmsdóttir er forstöðumaður þar. Segir hún 8-15 koma að jafnaði á hverjum degi og um 1500 manns á ári. Segir hún fólk geti komið að vild og að þjónustan sé gjaldfrjáls en í boði sé morgunverður, hádegisverður og kaffi gegn vægu gjaldi.
Á opna húsinu ilmaði húsið af kaffi og vöfflum en gestum bauðst að kaupa kaffi og vöfflur til styrktar starfinu í húsinu.