Carbfix hefur tekið í notkun nýja kolefnisbindingarstöð á Nesjavöllum.
Þetta er tilraunastöð sem sögð er marka tímamót í sögu Carbfix því með stöðinni á sér stað umfangsmesta kolefnisbinding sem átt hefur sér stað með Carbfix tækninni utan Hellisheiðar. Stöðin afkastar um þremur þúsundum tonna af koldíoxíði á ári sem er um 20% af því koldíoxíði sem sleppur frá Nesjavallavirkjun.
Dr. Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, yfirmaður kolefnisbindinga, Nökkvi Andersen, verkefnastjóri, og Ólafur Teitur Guðnason, samskiptastjóri kynntu nýju stöðina fyrir blaðamönnum fyrir skömmu og þar kom fram að binding kolefnis úr útblæstri jarðhitavirkjana er mikilvæg aðgerð í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Sögðu þau að það sé mikilvægur áfangi í því að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum.
Undanfari að stórri stöð sem fangar allar gastegundir
Sagði Sandra stöðina geta fangað allar þær gastegundir sem kæmu inn í hana og sagði mikilvægt að geta sýnt fram á að það sé hægt með vatni einu saman. „Þetta eru þau skref sem við erum að fara að taka 2024, erum núna að hanna stóra varanlega stöð sem mun fanga allt gas og mun hún byggja á reynslu okkar af þessari stöð,“ segir Sandra.
Fram kom að jarðvarmavirkjanir eru að losa um 180.000 tonn á ári af koldíoxíði. Af því koma um 36.000 tonn frá Hellisheiðarvirkjun og um 12.000 tonn frá Nesjavallavirkjun.
Í dag er verið að fanga um þriðjung af öllu koldíoxíði og um 75% af brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun en eins og áður segir um 20% af koldíoxíði frá Nesjavallavirkjun og álíka hlutfall af brennisteinsvetni.
Taldi Ólafur Teitur að ef næðist að binda alla losun frá jarðvarmavirkjunum á Íslandi væri það rétt tæplega 15% af því sem við þurfum að draga úr til að ná loftlagsmarkmiðum Íslands.
Stórt Evrópuverkefni
Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og hluti af stóru evrópsku samstarfi um 15 aðila. Mikill áhugi sé fyrir að nýta þessa tækni í öðrum löndum þar sem jarðvarmi er nýttur á svipaðan hátt. Hafa fjölmargir styrkir borist vegna þessa en langstærsti vísindastyrkur sem Ísland hefur fengið fékkst í fyrra, um 16 milljarðar til Coda verkefnisins í Straumsvík. Þar er hins vegar ekki verið að fanga koldíoxíð heldur er þar verið að taka á móti koldíoxíði sem verður dælt niður í bergið með vatni.
Leyst upp í vatni undir þrýstingi
Tilraunastöðin er í einum stórum gámi þar sem gasinu er dælt inn og það leyst upp í vatni með því að setja gasið (koldíoxíð og brennisteinsvetnið) og vatnið undir þrýsting. Þessu er svo dælt niður í bergið um borholu rétt við Nesjavallaveg, skammt frá gatnamótum við Grafningsveg. Stöðin er ekki mjög orkufrek, tekur um 200 kw sem er álíka afl og 10 rafmagnsbílar taka í akstri.
Föngunarhlutfallið er mun hærra í þessari stöð en stöðinni á Hellisheiði sem fangar um 90% af brennisteinsvetni og um 50% af koldíoxíði. Tilraunastöðin fangar 100% af brennisteinsvetni og 90-100% af koldíoxíði eftir því hvernig stöðin er stillt að sögn Nökkva Andersen sem upplýsti að dýrast sé að fanga síðustu 10%.
Verður að glópagulli og kalsíti
Þegar koldíoxíði og brennisteinsvetni hefur verið þrýst saman við vatnið myndast nokkurs konar sódavatn og þegar því er dælt niður í basalt berglög falla þau út sem glópagull og kalsít og leysast ekki upp þó bergið væri unnið.
Griðarlegt magn af vatni þarf til að dæla gasinu niður og eru tilraunir þegar hafnar með að nota sjó í staðinn fyrir vatn sem er mjög mikilvægt þar sem vatn er af skornum skammti.