fbpx
Sunnudagur, janúar 5, 2025
HeimFréttirNý Krýsuvíkurkirkja komin í Krýsuvík

Ný Krýsuvíkurkirkja komin í Krýsuvík

Ný Krýsuvíkurkirkja, endurgerð, gömlu Krýsuvíkurkirkju, var flutt til Krýsuvíkur á morgun en ætlunin var að hífa hana á sinn rétta stað en mikið rok var í Krýsuvík og var hífingu því frestað.

Eins og flestum er kunnugt brann Krýsuvíkurkirkja til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010 en kirkjan var byggð árið 1857, gerð upp og endurbyggð 1964 og síðar færð sem næst í upprunalegt horf með vinnu sem hófst 1986. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að Krýsuvíkurkirkju.

Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Kirkjan, sem byggð var 1857 af Beinteini Stefánssyni smið, hafði þá verið í mjög lélegu ástandi, var þá endurbyggð og friðuð.

Hún var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929.

Krýsuvíkurkirkja árið 1953. Ljósmynd: E.E.Í.

Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja árið 1981 eftir lagfæringar hafnfirskra skáta.

Viðamiklar viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Kveikt var í kirkjunni á nýársdag 2010 og brann hún til kaldra kola.

Vinafélag Krýsuvíkurkirkju barðist fyrir endurbyggingu

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Ný kirkja var smíðuð af nemendum og kennurum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, og lauk smíði hennar í sumar.

Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð Krýsuvíkurkirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, 7.097 m² lóð.

Nú er kirkjan komin til Krýsuvíkur og verður hífð á sinn stað í Krýsuvík, við rætur Bæjarfells á morgun. Síðar verður hún vígð og afhent Hafnarfjarðarkirkju. Hafnarfjarðarkirkja mun þá eiga og reka hana eftir það en Vinafélag Krýsuvíkurkirkju verður þá lagt niður.

Hafnarfjarðarkaupstaður mun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Flutningur kirkjunnar gekk vel

Flutningur kirkjunnar frá lóð gamla Iðnskólans í Hafnarfirði og til Krýsuvíkur gekk vel enda er kirkjan lítil og meðfærileg.

Þó þurfti að fara krókaleiðir til að forðast brýr og var því farið með kirkjuna í gegnum Setbergið, Mosahlíðina, Áslandið og í gegnum Vellina inn á Krýsuvíkurveginn. Eftir það gekk ferðin greiðlega og aðeins stoppað á leiðinni að beiðni þeirra sem voru að gera heimildarmynd um endursmíðina.

Hér má sjá kirkjuna á bílastæðinu við skátasvæðið og tóftir skátaskálans Skýjaborga er vinstra megin við kirkjuna en skemmdarvargar brenndu þann skála líka.

En þegar til Krýsuvíkur var komið var ljóst að ekki var hægt að hífa kirkjuna á sinn stað vegna þess að komið var hávaðarok. Verður hún hífð á sinn stað á morgun.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2