Hafnarfjarðarhöfn hefur fest kaup á nýrri flotbryggju sem komið verður fyrir við norðurenda viðgerðar- og þjónustubryggjunar neðan við Kænuna.
Bryggjan er 20 metrar á lengd og 4 metrar á breidd, smíðuð hjá Sf Marina í Svíþjóð. Köfunarþjónustan er umboðsaðili og gengur frá festingum.
Yst á þessari nýju bryggju verður komið fyrir sölutanki frá N1 sem fram til þessa hefur verið á enda Víkingsins. Gamli Víkingurinn er elsta flotbryggja landsins eða meira en hálfrar aldar gömul. Flotbryggjan var sett niður við Óseyri árið 1969, en var áður notuð sem prammi fyrir fljótlandi hótel á Hlíðarvatni í Hnappadalssýslu.
Víkingurinn er farinn að láta á sjá og verður tekinn upp á komandi ári og dýpkað á svæðinu áður en ný flotbryggja sömu gerðar og nú er komin, verður sett þar niður. Það bætir því í viðlegurými fyrir stærri báta innan við Óseyrarbryggjuna.
Heimild: Hafnarfjarðarhöfn