Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku breyttar reglur um stöðuleyfi og gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað.
Höfðu reglurnar verið endurskoðunar í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem m.a. voru byggðir á þeim rökum að álagt gjald hafi ekki tekið mið af rökstuddri rekstraráætlun um þau atriði sem ákvörðun gjalds eigi að byggjast á í skilningi 51. gr. mannvirkjalaga.
Fagnaði skipulags- og byggingarráð þeim árangri sem náðst hefur í fækkun gáma á iðnaðarsvæðum. Frá því að farið var í átak um skráningu á gámum og innheimtu stöðugjalds í sveitarfélaginu hefur þeim fækkað umtalsvert auk þess sem útgefin stöðuleyfi fóru úr 1% í 60% – 70%.
„Þar sem gámar á iðnaðarsvæðum eru til lítillar prýði er markmiðið enn að lágmarka fjölda þeirra á iðnaðarsvæðum og að eftirlit með staðsetningu þeirra sé markvist þar sem fjöldi og staðsetning gáma inn á lóðum getur valdið brunahættu og tafið störf slökkviliðs,“ segir í fundargerð ráðsins um málið er það var samþykkt og vísað til samþykktar í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.
Eitt gjald óháð fjölda gáma
Í fyrstu grein reglna um stöðuleyfir segir: „Allir sem eru með gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, eða stór samkomutjöld skulu sækja um stöðuleyfi til byggingarfulltrúa ef framangreindir lausafjármunir eiga að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem þeim er ætlað samkvæmt skipulagi sbr. b. liður 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. 9. tl. 60. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.“
Í eldri reglum stóð jafnframt: „Með skipulögðu svæði er átt við ef svæðið hefur verið deiliskipulagt í þeim tilgangi að vera gámasvæði.“ Það hefur nú verið fjarlægt.
Skv. nýju reglunum er nú innheimt gjald óhóð fjölda lausafjármuna á hverri lóð en áður var greitt fyrir hvern gám eða lausafjármun.
Nýju reglurnar má sjá hér.