fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAtvinnulífNýsköpunarsetur tekur til starfa í Hafnarfirði í haust

Nýsköpunarsetur tekur til starfa í Hafnarfirði í haust

Opið öllum áhugasömum

Í haust er stefnt að því að opna Nýsköpunarsetur á allri jarðhæðinni í Menntasetrinu við Lækinn, staðsett á skólabraut 3. Bæjarstjóri afhenti þeim lykla að húsnæðinu í janúar sl. en starfsemin er á vegum Hafnar­fjarðar­bæjar. Verkefnastjórar eru þær Margrét Lena Kristensen og Sólveig Rán Stefánsdóttir sem báðar eru lærðir líffræðingar. Margrét Lena hefur einnig alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun og hefur komið að stofnun nýsköpunar­fyrirtækja og Sólveig Rán hefur starfað sem stundakennari í raungreinum og þróað þematengd verkefni á ung­lingastigi í grunnskóla.

Brennandi áhugi

Þær segja að ástríða þeirra sé að vinna að nýsköpun en vinna við nýsköpun hafi breytt þeirra lífi og sýn á heiminn. Þær Margrét og Sólveig tóku t.a.m þátt í nýsköpunarkeppni 2020 undir merkjum Hack The Crisis Iceland ásamt einum til viðbótar og urðu í fyrsta sæti með nýskapandi lausn í heilbrigðisþjónustu. Þær vilji gjarnan gera þessa reynslu aðgengilega öllum, því skapandi umhverfi sé svo gefandi.

Markmiðið er að setrið verði afl sem geti hrint af stað jákvæðum breytingum
Markmið með stofnun setursins er að auka aðgengi íbúa Hafnarfjarðar að skapandi rými sem styður við hugmyndir og nýsköpun í heimabyggð og styrkja í leiðinni skapandi hugsun.
Segja þær að setrið eigi að vera suðupunktur nýsköpunar í Hafnarfirði og að það sé fyrir alla, allt frá leikskólabörnum til eldri borgara. Í Nýsköpunarsetrinu verður aðgengi fyrir skólahópa og aðra íbúa að nýjustu tækni og búnaði, búnaði sem allir skólar hafa aðgang að. Setrið verði þá með tengingar við skóla, hin ýmsu fyrirtæki, félög og önnur setur, og þannig verði hægt að styðja einstaklinga og hópa með faglegri leiðsögn og stuðning frá sérfræðingum.

Fjölbreytt og lifandi aðstaða verður í setrinu og má þar nefna fyrirlestrasali fyrir kynningar og viðburði „fín-” og „grófsmiðjur“ en í smiðjunum verða alls kyns tæki og tól sem hægt verður að fá aðgang að.

Hlúð að forvitni sem búi í okkur öllum

Margrét og Sólveig segja mikilvægt að virkja forvitni og sköpunarþörf fólks og nýsköpunarsetrið við Lækinn verði vettvangur þess.

Sólveig Rán Stefánsdóttir og Margrét Lena Kristensen

Þannig vilja þær ná til fjölbreytts hóps fólks, kennara allra skólastiga, almenn­ings, frumkvöðla og einnig til fyrirtækja og félagasamtaka. Þá er stefnt að því að bjóða upp á einstaklings ráðgjöf en einnig fyrirlestra og nám­skeið í stofnun fyrirtækja, „prótó­týpu“gerð, bókhaldi, tækniþjálfun, þrí­víddarprentun, fram­komu og vef­síðu­gerð svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður til verkfærakista full af þekkingu sem leik- og grunnskólar hafa aðgang að, en í henni er að finna ýmis verkfæri og hugmyndir að nýskapandi verkefnum fyrir skólastarf.
Fyrst um sinn verði áhersla lögð á leik- og grunnskóla og að efla nýsköpun þvert á allar greinar með það að markmiði að auka kennslu nýsköpunar og verk- og tæknigreina í skólum.

Nýsköpunarkeppni fyrir 8. bekkinga

Stefnt er að því að vera með nýsköpunarkeppni fyrir nemendur í 8. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar. Nefnist keppnin Hakkið og er þar vísað til keppna sem á enskri tungu kallast hackathon. Þetta er lausnakeppni þar sem keppendur þurfa að greina vandamál, leita að lausn, skipuleggja, prófa og kynna niðurstöðuna.

Margrét og Sólveig segja þetta vera draumaverkefni á fallegum stað við tjörnina og hlakka þær mikið til að opna húsið aftur fyrir öllum íbúum Hafnarfjarðar, ungum sem öldnum.

Nánari upplýsingar um Nýsköpunar­setrið við Lækinn er að finna á Facebooksíðunni Nýsköpunarsetrið við Lækinn. Einnig er hægt að senda þeim tölvupóst á margretk@hafnarfjordur.is og solveigs@hafnarfjordur.is.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2