Við Hádegisskarð er þessa dagana verið að koma fyrir einingum í tólf leiguíbúðir sem Skarðshlíð íbúðarfélag hses lætur reisa en íbúðirnar verða leigðar tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum.
Íbúðirnar eru 52-80 m² en auk þess eru sameiginleg rými í kjallara þeirra. Húsin eru timburklædd, með einhalla þaki og koma nær fullbúin að innan með öllum innréttingum.
Skarðshlíð íbúðarfélag hses er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarsjónarmiða sem stofnuð var af Hafnarfjarðarbæ. Félagið hefur þann tilgang að byggja eða kaupa, eiga eða hafa umsjón með rekstri og viðhaldi almennra íbúða og veita þjónustu í almannaþágu samkvæmt lögum um almennar íbúðir. Hugmyndafræðin til framtíðar er að íbúar sjái sjálfir um stjórn og rekstur félagsins.
Það er Hafnarfjarðarbær sem stendur að félaginu en Modulus eignarhaldsfélags ehf. sér um byggingu húsanna. Modulus er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 2016 þegar tekið var við öllum vörum frá húseiningaverksmiðju BYKO-LAT, systurfélagi BYKO á Íslandi.
Húsin eru byggð úr timbri, í misstórum einingum eftir þörfum viðskiptavina en að sögn Jakobs Helga Bjarnasonar, eins eigenda Modulus, næst mikil hagkvæmni í að byggja þau í Lettlandi þar sem aðgengi að öllum aðföngum er gott auk þess sem hagkvæmni næst í stórri eingingaverksmiðju.
Auglýst hefur verið eftir leigjendum en umsóknarfrestur er til og með 10. nóvember nk. og reiknað er með að fyrstu íbúarnir geti flutt inn í byrjun desember.