Mikil aðsókn hefur verið í fermingarstarf Fríkirkjunnar í Hafnarfirði síðastliðin ár. Skráð fermingarungmenni telja nú um tvö hundruð talsins og hafa aldrei verið fleiri.
Í rauninni hefur fjöldi fermingarbarna ekki verið í neinu samræmi við fjölda skráðra í Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði og margir kjósa að koma í fermingarfræðslu í Fríkirkjunni.
Fríkirkjan er sjálfstæður söfnuður og fær því enga styrki úr ríkissjóði og rekur starfsemi sína á safnaðargjöldum og styrkjum.
Þakklát að hafa náð að hefja fermingarstarfið með nokkuð hefðbundnum hætti
Einar Eyjólfsson og Margrét Lilja Vilmundardóttir, prestar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, segja í samtali við Fjarðarfréttir að fermingarstarfið hafi farið vel af stað og öll séu þau þakklát fyrir að hafa náð að hefja fermingarstarfið með nokkuð hefðbundnum hætti.
„Við erum með metnaðarfullt starf fyrir fermingarungmenni og það skilar sér í mikilli þátttöku. Við leggjum áherslu á samfélagsleg mál dagsins í dag í tengslum við trú og kirkju,“ segir Margrét Lilja og bendir á mikilvægi þess að kynna fyrir fermingarungmennunum hvert hlutverk kirkjunnar sé í nútímasamfélagi.
„Megináhersla er lögð á virðingu, samskipti, jafnrétti, mannréttindi, umhverfismál og metoo í trúarlegu- og kirkjulegu samhengi. Við erum fyrst og fremst kirkja sem vill hlusta á samfélagið og móta sig í takt við tíðaranda og breytilegar trúarþarfir, sem þroskast í sífellu. Við viljum alltaf vera til staðar í samfélagi sem er á mikilli hreyfingu.“ Margrét Lilja segir að til þess þurfi kirkjan að vera lifandi, auðmjúk, starfssöm og tilbúin að þroskast með fólkinu sem hún þjónar. „Þetta, öðru fremur, grundvallar ánægjulegan vöxt kirkjunnar.“
Verð aldrei leiður á því að starfa með fermingarungmennum
Einar bætir því við að það sé gaman að fylgjast með starfinu vaxa ár frá ári og verða vitni að því hversu áhugasöm fermingarungmennin séu um fermingarnar.
„Ég verð í hið minnsta aldrei leiður á því að starfa með fermingarungmennum þó svo það séu nokkuð mörg ár frá því að ég hóf störf,“ segir Einar.
Nánar má fræðast um starf Fríkirkjunnar á frikirkja.is