Rétt fyrir hádegi var tilkynnt um að bíl hafði verið ekið á ljósastaur og stein á Lækjargötu við Brekkugötu.
Fór tækjabíll slökkviliðsins á staðinn ásamt sjúkrabíl og tveimur lögreglubílum.
Hafði bíl verið ekið upp Lækjargötu og af einhverjum ástæðum verið sveigt til hægri, fyrst á viðvörunarmerki vegna framkvæmda á Dvergslóðinni og síðan á ljósastaur og stein. Var áreksturinn það harður að ljósastaurinn féll niður og bíllinn tók með sér stóran stein og snérist til hægri og endaði inni á Brekkugötunni.
Viðbragðsaðilar voru við bílinn er blaðamann bar að og að sögn lögreglu var ekki talið að ökumaður væri meiddur og var hann enn inni í bílnum og spjallaði við viðstadda.
Ljósastaurinn er við ljósastýrða gangbraut og mildi að enginn varð fyrir bifreiðinni.