„Þú færð kraft úr kókómjólk! MÍJÁÁÁ!“ frussa ég út úr mér og sýni vöðvana mína. Upptökumennirnir virðast ægilega ánægðir með mig. ,,Oog klippa!“ segir umboðsmaður minn, Skarphéðinn. „Allir eiga eftir að elska þig þegar þú kemur upp á svið.“ Hjartað mitt stoppar og ég fölna. Ha?! Á svið?“ missi ég út úr mér. „Já! var ekki búið að segja þér frá því?“ spyr hann og lyftir brún. ,,Hugsaðu þér! Þú Klói á sviði, allir munu dýrka þig! Og svo þegar þeir sjá þig drekka kókómjólkina þína.“ Hann var alveg við það að missa sig úr spenningi. „Já já ég skil“ sagði ég og reyndi að róa hann. „En hvenær verður það?“ spurði ég en vildi helst af öllu bara sleppa þessu. „Í næstu viku á miðvikudaginn“ sagði hann og var loksins búinn að róa sig á spenningnum. „Ókei“ sagði ég. „Við sjáumst!“ sagði ég og blikkaði hann. „Já! Bless!“
Á leiðinni heim reyndi ég ekki að hugsa út í þetta en það var ómögulegt! Allir áttu eftir að sjá að ég get ekki drukkið kókómjólk út af ég er með mjólkuróþol!
„Gotti, hérna er límonaðið þitt!“ segir Karl aðstoðarmaður minn og réttir mér bakka með límonaði og kexi. „Takk!“ segi ég og tek við bakkanum. Ég kveiki á sjónvarpinu og þá kemur akkúrat auglýsing með Klóa. ,,Ohhhhh…“ dæsi ég. „Af hverju get ég ekki verið eins og hann? Svaka vöðva fjall, myndarlegur og algjört kvennagull“ tauta ég og tek sopa af límonaðinu. „Hvaða, hvaða?“ Aðstoðarmaðurinn lítur á mig uppörvandi. „Æj, bara ég vildi að ég væri eins og Klói, það er ekkert vesen hjá honum allir elska hann og hann er ekki með neitt laktósaofnæmi“ segi ég og slekk á sjónvarpinu. „Þú veist ekkert um það, hann er örugglega að glíma við einhver vandamál. Enginn er fullkominn“ segir Karl hughreystandi en það hjálpaði ekkert. Allt í einu kemur bréf í gegnum lúguna. „Ó póstur!“ Ég og stend upp og næ í bréfið. Ég les það og á meðan bíður Karl spenntur að fá að vita hvað stendur. Ég yggldi brýrnar. „Ég á að koma á svið með Klóa!“ æpi ég. „Ha?! Má ég sjá!“ Karl tekur við bréfinu og les það. „Þú segir satt! Á miðvikudaginn í næstu viku! Það er sunnudagur og þá eru þrír dagar í þetta! Þetta er frábært tækifæri, Gotti!“ Ég hristi höfuðið ,,Þetta er slæmt! Ég mun væntanlega þurfa að borða ost fyrir framan alla! Allir munu fatta það að ég sjálfur, Gotti, get ekki borðað ost!“ Karl skilur mig og reynir að hugsa hvað skal gera. „Ég gæti sagt þeim að þú verður upptekin?“ stingur hann upp á. „Æj ég veit það ekki“ dæsi ég.
Ég vakna við vekjaraklukkuna mína og teygi úr mér, ég kíki í símann minn og sé að Skarphéðinn vill fá mig strax í upptökuhúsið. Ég andvarpa og hugsa að ræktin verði að bíða í bili.
Þegar ég er kominn í upptökuhúsið sé ég stubbalegan ljóshærðan dreng en þegar hann snýr sér við sé ég þá að þetta er Gotti. Ég brosi og reyni ekki að hljóma dónalega. „Gotti? Hvað ert þú að gera hérna?“ spyr ég. „Hann Gotti mun koma með þér upp á svið, þetta verður stórkostlegt allir munu dýrka þetta!“ segir Skarphéðinn spenntur. Ég var búinn að steingleyma þessu, en það létti aðeins yfir mér að vita að ég þyrfti ekki að koma einn á svið. „Oh það er fínt“ svara ég og við setjumst niður við fundarborðið og Skarphéðinn fer að tala um hvernig allt væri planað á miðvikudaginn. Mér fannst Gotti vera eitthvað undarlegur, það var eins og eitthvað angraði hann.
Ég og Gotti vorum við útidyrnar. ,,Þið mætið svo klukkan níu um morgun á miðvikudaginn,“ segir Skarphéðinn og við kinkum kolli báðir tveir áður en við löbbum saman út.
Ég reyni að finna eitthvað sniðugt að segja til að brydda upp á samræðum en dettur ekkert í hug. „Ertu nokkuð stressaður?“ segi ég svo eins aulalega og hægt er. Hvað var ég að hugsa?! „Tja….kannski pínu..“ viðurkennir Klói og hallar bakinu upp að gamla upptökuhúsinu. „En þú,“ spyr hann voða afslappaður. Hann gat einhvern veginn verið alltaf rólegur og einstaklega svalur í öllum aðstæðum. „Kannski smá..,“ andvarpa ég. Ætti ég að segja honum frá laktósaofnæminu? hugsa ég. En kemst ekki lengra. „Komum á kaffihúsið, ég væri til í að kynnast þér betur,“ segir Klói. „Jájá,“ segi ég og við röltum af stað. ,,Gjöriði svo vel,“ segir þjónninn og kemur með bakka af kaffi. „Viljiði mjólk út í?“ „NEI!“ æpum við báðir í einu. Klói lítur á mig hissa. „Ókei….,“ segir þjónninn vandræðalegur og gengur í burt.
Ég lít á Gotta og spyr loks. „Drekkur þú svart kaffi?“ „J-já…,“ segir hann hikandi. Við tökum loksins eftir því að fólk er farið að horfa á okkur og pískrast sín á milli. Gotti teygir sig yfir til mín og hvíslar að mér. „Ég er með laktósaóþol.“ Ég stirna. „Ekki segja neinum,“ segir Gotti. Ég hika en hvísla svo. „Ég líka..“
Við ákváðum að fara heim til Klóa til að ræða saman í næði. Við báðir útskýrðum okkar mál fyrir hvort öðrum. Þá fer ég að skellihlæja og segi við Klóa; „hugsaðu þér hversu kjánalegt þetta er, Klói. Tveir frægustu talsmenn landsins fyrir mjólkurvörur eru með laktósaóþol!“ „En hvað ef við búum til laktósalausa kókómjólk og laktósalausan Gottaost. Svo á sviðinu sýnum við öllum þessa nýju vörur og segjum öllum frá laktósaofnæminu!“ stingur Klói upp á. „Það er geggjuð hugmynd!!“ æpi ég yfir mig.
Klói og Gotti fengu góðan mann úr vöruþróun Mjólkursamsölunnar í lið með sér til að búa til laktósalausa kókómjólk og laktósalausan Gottaost. Þetta var erfið vinna því þeir höfðu ekki mikinn tíma. Loksins náðu þeir að klára báðar vörurnar og klukkan var tólf á miðnætti, aðfaranótt miðvikudags. „Jæja, við ættum að ná einhverri hvíld, það er stór dagur á morgun,“ segir Gotti.
Ég og Gotti vorum komnir í upptökuhúsið á slaginu níu um morgun. Ég var rosalega stressaður en það hjálpaði að hafa Gotta með mér í liði. Loksins var einhver sem að skildi mig. Svo var komið að stóru stundinni. Ég sá hvað Gotti var stressaður og tók utan um öxl hans og sagði hughreystandi: „Við erum saman í þessu.“ Gotti slakaði á í öxlunum og andaði léttar. Hann leit upp til mín og brosti. Við horfðum í augu hvors annars og kinkuðum kolli báðir tveir, tilbúnir að takast á við hvað sem er og leysa vandamálin okkar saman. Við gengum á sviðið, fagnaðarópin í salnum trufluðu okkur ekki, við vorum ekki lengur stressaðir, við vorum ósigrandi saman. Loksins gat ég verið ég sjálfur, loksins þurfti ég ekki að fela neitt. Því með Gotta gat ég verið ég sjálfur og ég fann það að Gotta leið eins.
Höfundur:
Birta Jóhannsdóttir, Öldutúnsskóla