fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkÁsakanir án afleiðinga? Adda María ósátt með Inga Tómasson

Ásakanir án afleiðinga? Adda María ósátt með Inga Tómasson

Adda María vill umræður á bæjartjórnarfundi um ásakanir í hennar garð

Eins og kom fram í síðasta blaði Fjarðarfrétta ásakaði fulltrúi Sjálf­stæðis­flokksins og for­maður skipulags- og bygg­ingar­ráðs, Ólafur Ingi Tómasson, fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um brot á siðareglum vegna bókunar sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar þann 14. febrúar undir umræð­um um lóðaúthlutanir í Skarðs­hlíð.

Adda María Jóhannsdóttir er mjög óhress með að málið hafi ekki verið tekið upp í forseta­nefnd eins og hún óskaði eftir en á fundinum sagði forseti bæjarstjórnar að ásakanir um brot á siðareglum þyrfti að beina til forsetanefndar.

Ingi taldi Öddu Maríu hafa farið með rangt mál og brotið siðareglur í ræðu á fundinum sem og í viðtali í Fréttablaðinu þann 19. febrúar.

„Ég tek slíkar ásakanir alvarlega og þar sem um málið var fjallað í Fjarðarfréttum lið­innar viku get ég ekki látið hjá líða að bregðast við, jafnvel þótt niðurstaða hafi ekki feng­ist í málinu,“ segir Adda María í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér.

„Í umræddri ræðu, sem og í bókun sem fulltrúar Sam­fylkingar og Vinstri grænna lögðu fram á fundinum, lýstum við áhyggjum okkar af því hversu mörgum lóðum, sem út­hlutað var í Skarðshlíðar­hverfi sl. haust, hefur verið skil­að. Til okkar höfðu borist erindi frá lóðarhöfum sem töldu skilmála um djúpgáma og efnisval vera íþyngjandi og setja þeim þröngar skorður,“ segir Adda María ennfremur.

Bókunina, sem birt er hér að neðan, taldi Ingi Tóm­as­­son, vera brot á siðareglum kjörinna fulltrúa. Í samantekt sem Ingi lét sjálfur taka saman fyrir fund­inn kemur fram að um þriðjungi lóða hefur verið skilað aftur til bæjarins, sem Adda María segir að staðfesti það sem kom fram í málflutn­ingi fulltrúa minnihlutans.

Þá sagði Ingi Tómasson m.a. á bæjarstjórnarfundinum:

„En þegar Samfylkingin með aðstoð Vinstri grænna taka eigin hagsmuni í pólitískum tilgangi fram yfir almannahagsmuni og hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar er of langt gengið og fer langt yfir það sem siðareglur Hafnarfjarðar kveða á um.“

Í bókun Samfylkingar og VG segir:

„Það er mikið áhyggjuefni hversu mörgum lóðum sem úthlutað var í Skarðshlíðarhverfi sl. haust hefur verið skilað. Þá hafa fáar íbúðir verið byggðar í Hafnarfirði á síðustu árum, þrátt fyrir að nóg væri til af tilbúnum lóðum. Í upphafi kjörtímabils var farið í tímafreka endurskoðun á skipulagi í Skarðshlíð sem hefur ekki aðeins tafið nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis, heldur einnig gert það að verkum að svæðið höfðar ekki sem skildi til fólks sem vill byggja. Þar hafa íþyngjandi skilmálar m.a. um djúpgáma og efnisval sett lóðarhöfum þröngar skorður. Breytingar á því nú munu ekki gagnast þeim sem afsalað hafa lóðum. Þrátt fyrir að lóðir í Skarðshlíð séu búnar að vera tilbúnar til úthlutunar allt þetta kjörtímabil hefur núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar skilað auðu í lóðaúthlutun og húsnæðisuppbyggingu.“

Segir Adda María það vera skiljanlegt að fulltrúum Sjálf­stæðisflokksins svíði þegar bent er á óþægilegar stað­reyndir, enda hafa þeir skilað fullkomlega auðu þegar kemur að húsnæðismálum og lóða­úthlutun á kjörtímabilinu. „En að þagga niður óþægilega um­ræðu með dylgjum um brot á siðareglum getur seint talist málefnalegt.
Undirrituð óskaði sjálf eftir því að málinu yrði beint til forseta­nefndar til umfjöllunar. Það var hins vegar ekki fært til bókar og bæjarfulltrúinn, Ólaf­ur Ingi Tómasson, hefur ekki lagt inn formlegt erindi þess efnis. Þegar þetta er ritað er því ekki ljóst hvað verður um málið en ég hef óskað eftir umræðum um það á næsta fundi bæjarstjórnar, miðviku­daginn 14. mars nk.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2