fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkBorghildur og Pétur mótmæla ásökunum Guðlaugar í bréfi til ráðuneytis

Borghildur og Pétur mótmæla ásökunum Guðlaugar í bréfi til ráðuneytis

Hafa sjálf sent bréf til ráðuneytisins og lýsa sinni hlið málsins

Borhildur Sölvey Sturludóttir og Pétur Óskarsson varabæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar hafa sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu yfirlýsinu í kjölfar svarbréfs til ráðuneytisins sem samþykkt var með þremur atkvæðum í bæjartjórn í gær.

Þar mótmæla þau þeirri fullyrðingu Guðlaugar Svölu Kristjánsdóttur fyrrum oddvita Bjartrar framtíðar um að að ástæður brottvikningar þeirra úr ráðum megi rekja til langvarandi og djúpstæðra samstarfsörðugleika og trúnaðarbrests innan fulltrúahóps Bjartrar framtíðar (BF) og að samskiptin við þau hafi verið stirð um langan tíma.

Vísa þau ábyrgðinni á Guðlaugu sem hafi lítið sinnt oddvitastarfinu vegna anna sem formaður stjórnar Bjartrar framtíðar og framboðs síns til þings í Norðurlandi vestra. Segja þau hana ekki hafa boðað til funda og hún hafi misst trúnað í flokknum og hún hafi ekki haft traust til þess að leiða listann í komandi kosningu.

Aðeins þrír fulltrúar greiddu atkvæði með samþykkt á svari til ráðuneytis

Yfirlýsingu þeirra má sjá hér:

Yfirlýsing vegna brottvikningar varabæjarfulltrúa Bjartar framtíðar úr nefndum og ráðum Hafnarfjarðarbæjar.

Í tilefni af yfirlýsingu Guðlaugar Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur í bréfi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar til Samgöngu- og Sveitarstjórnarráðuneytis vegna brottvikningar undirritaðra úr Skipulags- og byggingarráði og Hafnarstjórn sem lagt var fyrir bæjarstjórn 9. maí 2018 teljum við mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri.

Guðlaug Svala heldur því fram að ástæður brottvikningar okkar megi rekja til langvarandi og djúpstæðra samstarfsörðugleika og trúnaðarbrests innan fulltrúahóps Bjartrar framtíðar (BF) og að samskiptin við okkur hafi verið stirð um langan tíma.

Við getum staðfest að samskiptin innan bæjarmálahóps BF hafa verið stopul undanfarna mánuði sem má fyrst og fremst rekja til þess að annar bæjarfulltrú Bjartrar framtíðar, Einar Birkir Einarsson, hætti öllum ráðs- og nefndarstörfum fyrir tveimur árum og flutti úr bænum og þeirrar staðreyndar að Guðlaug Svala hefur ekki sinnt oddvitahlutverki sínu innan bæjarmálahóps BF í marga mánuði. Fjarvera hennar frá því verkefni og fjarvera Einars Birkis frá nær öllum verkefnum hópsins í bráðum tvö ár hefur skilað sér í færri samtölum og minni samhæfingu en æskilegt hefði verið. Svo var komið í okkar hópi á vormánuðum að enginn í bæjarmálahópi BF studdi Guðlaugu Svölu lengur til áframhaldandi setu í oddvitasæti flokksins kæmi til framboðs Bjartar Framtíðar fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor.

Hinsvegar hafa störf okkar undirritaðra bæði í Hafnarstjórn og í Skipulags- og byggingarráði verið bæði ánægjuleg og árangursrík síðustu ár. Í Hafnarstjórn hefur stjórnin unnið samhent að öllum málum á kjörtímabilinu og í Skipulags- og byggingarráði má telja þau mál sem afgreidd hafa verið í ágreiningi út úr ráðinu á síðustu 4 árum á fingrum annarrar handar. Það að oddvitinn okkar Guðlaug Svala skuli ekki hafa kallað hópinn okkar saman á bæjarmálafundi og hafi ekki rætt við okkur um verkefni líðandi stundar verður að skrifast á hennar reikning en ekki okkar.

Það dæmi sem nefnt er í yfirlýsingu hennar um meinta samstarfsörðugleika varðar breytingu á skipulagi við Austurgötu. Málið hafði nokkurn aðdraganda og því miður hafði bæjarráð tekið ákvörðun eftir fjölmiðlaumfjöllun að styrkja eigendur umrædds húss til þess að rífa húsið og gera nýtt deiliskipulag á lóðinni án þess að málið hefði fengið eðlilega umfjöllun á vettvangi skipulags- og byggingarráðs. Við höfðum lýst yfir áhuga okkar á að standa vörð um götumynd Austurgötu, sem er af mörgum talin ein sú fallegasta á landinu og og veltum upp þeirri hugmynd að lausn að bærinn keypti húsið og seldi aftur með ákvæðum um endurbyggingu. Fyrir því var ekki áhugi enda erfitt að fylgja málinu eftir á faglegu forsendum eftir ótímabæra og órökstudda afgreiðslu bæjarráðs.

Við kynntum öðrum fulltrúum meirihlutans á meirihlutafundi þann 5.mars s.l. að við myndum engu að síður samþykkja tillögu að nýju deiliskipulag en lýstum jafnframt óánægju okkar með feril málsins og niðurstöðu. Það kom því engum á óvart að við legðum fram bókun samhliða samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem við áréttuðum mikilvægi vandaðra og faglegra vinnubragða í slíkum málum í framtíðinni. Bókun sem Guðlaug Svala vitnar til í yfirlýsingu sinni er eftirfarandi, en ástæða er til að benda á að fulltrúar BF greiddu tillögunni bæði atkvæði sitt en fulltrúar minnihlutans sátu hjá við afgreiðsluna:

“Fulltrúar BF í Skipulags- og byggingarráði vilja árétta hlutverk ráðsins þegar kemur að markmiðum aðalskipulagsins og hinnar gömlu byggðar. Það er okkar mat að framtíðarsýn bæjarins er veik – ef að rífa á öll þau hús þar sem upp koma veggjatítlur eða mygluvandamál. Mikilvægt er að koma slíkum málum þar sem skipulags- og byggingayfirvöld eru með frá upphafi. Þetta mál hefur að okkar mati ekki farið rétta leið í kerfinu þar sem að bæjarráð ákveður að styrkja niðurrif áður en ljóst var hvað ætti að koma í staðinn og án þess að gerður væri heildstæður samningur við eigendur um lausn á þeirra málum. Mál sem þessi eru mikið tjón fyrir húseigendur og verulega óvissa á líf þeirra og framtíð. Fulltrúar BF óska því eftir því að Hafnarfjarðarbær hafa frumkvæði að því að kortleggja þá ferla og þær leiðir sem hægt væri að fara – fyrir húsin og eigendur þeirra. Við eigum fjársjóð í okkar timburhúsabyggð sem við viljum halda í, varðveita og viðhalda.”

Við höfnum því alfarið að þetta mál sé dæmi um trúnaðarbrest eða alvarlega samstarfsörðugleika. Í þessu máli vorum við einfaldlega að fylgja eigin sannfæringu og standa undir þeirri ábyrgð og hlutverki sem bæjarstjórn fól okkur að sinna.

Varðandi þá gagnrýni að við höfum ekki viljað hitta bæjarbúa sem eiga erindi fyrir Skipulags- og byggingarráði, þá höfum við ítrekað bent á nauðsyn þess að bæjarfulltrúar bjóði uppá viðtalstíma, sér í lagi formenn nefnda og ráða, þar sem að fundargerð væri rituð og málin fengju síðan farveg á fundunum sjálfum. Nálægðin í okkar bæjarfélagi er mikil fyrir og höfum við lagt okkur fram við að vera fagleg í okkar störfum, gæta jafnræðis og fylgja lögum og reglum í hvívetna. Höfum við meðal annars lagt á það áherslu að stjórnsýslan þurfi að vera gegnsæ og að aðgengi bæjarbúa að kjörnum fulltrúum sé jafnt og byggt á málefnalegum grunni. Í öllum okkar störfum höfum við þannig sett virðingu fyrir lýðræðinu og skýrum leikreglum framar öðru. Höfum við gengið út frá því að hagsmunir einstakra stjórnmálamanna eða flokka eigi ekki að vega þyngra en hagsmunir almennings í Hafnarfirði og höfum ekki horfið frá þeirri skoðun okkar.

Hafnarfirði 9. maí 2018.

Borghildur Sölvey Sturludóttir
Pétur Óskarsson
varabæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2