Friðþjófur Helgi Karlsson hefur tilkynnt að hann muni óska eftir lausn frá störfum bæjarfulltrúa frá og með 1. janúar 2022.
Í tilkynningu á samfélagsmiðlum segir hann að fyrir þeirri ákvörðun séu nokkrar ástæður sem hann ætlar ekki að rekja frekar þar eða annars staðar.
„Mér er þakklæti ofarlega í huga á þessum tímapunkti. Það hafa verið mikil forréttindi að fá tækifæri til að vinna að málefnum bæjarins þessi tæpu átta ár sem aðal- og varabæjarfulltrúi. Vinna einlæglega með það að markmiði að gera góðan bæ, sem mér þykir svo vænt um, betri fyrir íbúa hans. Ég hef reynt að nálgast verkefni mín af vandvirkni, ábyrgð og af ákveðinni auðmýkt. Ég hef ávallt reynt að hafa að leiðarljósi að vera málefnanlegur og trúfastur í málflutningi mínum. Drifinn áfram af hugsjónum um réttlátt samfélag sem leggur m.a. áherslu á jöfn tækifæri og samhygð. Ég á virkilega eftir að sakna þessa tíma en það er svo sem ekkert víst að ég sé alveg hættur afskiptum af pólitík, hvar og hvernig sem það verður í framtíðinni. Það er allt óráðið enn,” segir Friðþjófur Helgi í tilkynningunni.