Þrjár konur eru launahæstar bæjarfulltrúa hjá Hafnarfjarðarbæ. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Öddu Maríu Jóhannsdóttur fulltrúa Samfylkingar á fundi bæjarráðs í gær.
Guðlaug Kristjánsdóttir, Bjartri framtíð, forseti bæjarstjórnar er launahæst bæjarfulltrúa í Hafnarfirði. Þiggur hún 896.569 kr. á mánuði í laun fyrir sín störf.
Rósa Guðbjartsdóttir, Sjálfstæðisflokki, formaður bæjarráðs er næst launahæst bæjarfulltrúa með 834.231 kr. á mánuði fyrir sín störf.
Helga Ingólfsdóttir, Sjálfstæðisflokki er þriðji launahæsti bæjarfulltrúinn með 615.534 kr. á mánuði en á hæla hennar koma Kristinn Andersen, Sjálfstæðisflokki og Margrét Gauja Magnúsdóttir, Samfylkingu með 602.438 kr. á mánuði hvort fyrir störf sín og Ólafur Ingi Tómasson, Sjálfstæðisflokki með 580.610 kr. á mánuði fyrir störf sín.
Adda María Jóhannsdóttir, Samfylkingu, Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, VG og Unnur Lára Bryde, Sjálfstæðisflokki eru með 471.473 kr. á mánuði hver.
Tveir karlar með lægstu launin
Lægstu launin eru þeir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingar og Einar Birkir Einarsson, Bjartri framtíð með, 288.122 kr. á mánuði en þeir fá eingöngu greitt fyrir setu í bæjarstjórn.
Meðallaun bæjarfulltrúa eru 557 þús. kr. á mánuði. Heildarlaunagreiðslur hækkuðu um 1,8 millj. kr. auk launatengdra gjalda á mánuði frá 18. janúar sl.
Inni í þessum tölum eru laun fyrir setu m.a. í stjórn Strætó bs. og stjórn Sorpu bs. og eru þau laun greidd beint úr viðkomandi fyrirtækjum sem Hafnarfjarðarbær leggur fé til og greiðir því launin óbeint.
Konur í bæjarstjórn með 42% hærri meðallaun en karlar
Í bæjarstjórn eru 7 konur og 4 karlar. Meðallaun kvennanna eru nú 623.313 kr. á mánuði en meðallaun karlanna eru 439.823 kr. á mánuði og eru meðallaun kvennanna því 41,7% hærri. Þeir sem eru með hæstu launin eru líka í flestum embættum.
Ákveða laun sín sjálfir
Laun bæjarfulltrúa eru ákveðin af þeim sjálfum. Þeir ákveða viðmiðunarlaun og ákveða hvernig skiptingin er, t.d. hvað greitt er fyrir setu í ráði og nefndum. Almennur nefndarmaður í ráði fær nú t.d. 130.965 kr. á mánuði en bæjarfulltrúi fær 288.122 kr. á mánuði.
Aukalega er greitt fyrir formennsku, setu í bæjarráði og greitt er 26.193 kr. fyrir hvern fund í forsetanefnd en meðallengd þeirra 17 funda sem voru á síðasta ári var 83 mínútur.