Bæði Vinstri grænir og Samfylkingin opnuðu kosningaskrifstofur sínar á laugardaginn. Nú er aðeins rúm vika til kosninga og sjaldan hefur kosningabaráttan farið eins seint af stað og nú.
Vinstri grænir buðu upp á heitar vöfflur og kaffi en þangað voru mætt Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem skipar 1. sæti í SV kjördæmi, Ólafur Þór Gunnarsson sem skipar 2. sætið og Sigursteinn R. Másson sem skipar 4. sætið. Svavar Gestsson f.v. ráðherra heilsaði upp á fólkið og var að sjálfsögðu fenginn til að vera með á mynd.
Samfylkingin var nýbúin að opna þegar blaðamaður leit við og voru þau sem skipa 1. og 2. sætið, Árni Páll Árnason og Margrét Gauja Magnúsdóttir ekki enn komin úr 30 ára afmæli Krýsuvíkursamtakanna. Blaðamaður hafði smellt mynd af þeim þar ásamt Samfylkingarkonunni Helenu Mjöll Jóhannsdóttur.