fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirLækka á álagningarprósentu fasteignaskatta - Fjárhagsáætlun lögð fram

Lækka á álagningarprósentu fasteignaskatta – Fjárhagsáætlun lögð fram

Tillaga að fjárhagsáætlun 2024 var lögð fram á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar­kaupstaðar til fyrri umræðu í gær en fundargerðin hefur ekki enn verið birt á heimasíðu bæjarins nú á fjórða tímanum.

Áætlað er að rekstrarafgangur A-hluta sveitarsjóðs verði 1.031 milljón króna fyrir árið 2024 sem er töluvert meira en útkomuspá fyrir núverandi ár geri ráð fyrir.

Áætlað er að heildar skatttekjur nemi 31,5 milljörðum kr. sem er 8,8% meira en útgönguspá fyrir 2023 gerir ráð fyrir og 24,7% hærra en heildar skatttekjur ársins 2022 á meðan að áætluð rekstrargjöld hækka um 16,6% á sama tíma.

2 milljarðar króna í fjármagnsgjöld

Gert er ráð fyrir að greiða þurfi um 2 milljarða kr. í fjármagnsgjöld að frádregnum fjármagnstekjum en það stefnir í að þau verði rúmlega 2,5 milljarðar kr. á þessu ári.

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,7% af heildartekjum eða 2.788 milljónir króna.

Stöðugt hagnaður af rekstri Vatnsveitu, Fráveitu og Hafnarsjóði

Áætlað er að B-hluta hluta fyrirtækin bæti rekstrarafkomuna um 863 milljónir kr. og verði afkoma A- og B-hluta bæjarsjóðs jákvæð um 1.894 milljónir króna fyrir árið 2024. B-hluta fyrirtækin eru Fráveita sem áætlað er að skili 591 milljóna kr. rekstrarafgangi, Hafnarsjóður sem skili 247 milljóna kr. rekstrarafgangi, Vatnsveita sem skili 167 milljóna kr. rekstrarafgangi og Húsnæðisskrifstofa sem reiknað er með að skili 210 milljóna kr. rekstrarhalla. Að auki er reiknað með að samstarfsverkefni B-hluta skili 68 milljóna kr. rekstrarafgangi sem er hlutdeild bæjarins í rekstri Sorpu og Strætó bs.

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,7% af heildartekjum eða 2.788 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði jákvæður um rúma 4 milljarða króna og afkoma A-hluta verði jákvæð um rúman einn milljarð króna.

Skuldir hækki en skuldahlutfall lækki í 129%

Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B-hluta verði um 48,8 milljarðar króna árið 2024 og að áætluð rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði um 42,8 milljarðar króna.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að fjárhagsleg staða Hafnarfjarðarbæjar sé traust og skuldaviðmið skv. reglugerð 520/2012 [502/2012, leiðrétting Fjarðarfrétta] áætlað 86% í lok næsta árs. Er þá búið að undanskilja lífeyrisskuldbindingar, leiguskuldbindingar frá ríkissjóði, veltufjármuni og fyrirframgreiðslur vegna uppgjörs A deildar Búar lífeyrissjóðs.

Skuldahlutfallið sem er hlutfall heildarskulda af heildartekjum sveitarfélagsins er hins vegar 129% og áætlað er það verði 135% í árslok 2023. Það var 132% í árslok 2022.

Álagningarprósenta fasteignaskatts lækkuð

Boðað er að útsvarsprósenta á árinu 2024 verður óbreytt 14,70% en til að koma til móts við hækkað fasteignamat verður álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðahúsnæði lækkuð úr 0,223% í 0,217%. Þá verður álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði jafnframt lækkuð úr 1,400% í 1,387%.

9,9% almenn hækkun á gjaldskrám

Gert er ráð fyrir almennri hækkun gjaldskrár um 9,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum umfram áætlanir þessa árs og væntanlegri verðbólgu næsta árs. Gjaldskrá vegna sorphirðu er almennt að hækka um 9,9% en breytt samsetning sorpíláta hjá íbúum getur dregið talsvert úr þeirri hækkun.

Hvað segja áætlaðar niðurstöður okkur?

Veltufé frá rekstri er áætlað tæpir 2,8 milljarðar kr. en skuldirnar eru áætlaðar tæpar 37 milljarðar. Það tæki því 13,3 ár að borga allar skuldir sveitarfélagsins ef veltuféð væri það sama öll árin. Ef aðeins A-hlutinn, sem er rekstur sveitarfélagsins, þá ver veltuféð rétt rúmur 1 milljarður kr. og langtímaskuldirnar 30,8 milljarðar og það tæki því 29,8 ár að greiða skuldirnir niður með sama áframhaldi.

Veltufé frá rekstri sem hlutfall af afborgunum langtímalána er 1,1 sem telst vart viðunandi að mati sérfræðinga en þegar A-hlutinn er skoðaður þá versnar ástandið því þá er hlutfallið aðeins 0,5 en talið að það þurfi að vera að lágmarki 1.

Hlutfall veltufjármuna, lausafé sem hægt er að losa innan eins árs, af skammtíma­skuldum er 1,36 sem gefur til kynna að nokkuð auðvelt er að greiða skammtímaskuldir. Ef sama er skoðað hjá A-hlutanum kemur í ljós að hlutfallið fellur niður í 1,08 sem er komið á hættusvæði.

Veltufé frá rekstri sem hlutfall af rekstrartekjum Hafnarfjarðarkaupstaðar er áætlaður 5,7% en ef aðeins A-hlutinn er skoðaður er hlutfallið 2,77%. Í samanburði við önnur sveitarfélög landsins fyrir árið 2022 var meðaltalið 3,7% þegar hlutfallið hjá Hafnarfjarðarbæ var 0,3%. Í samanburði A- og B-hluta var meðaltal allra sveitarfélaganna árið 2022 10,6% þegar hlutfallið í Hafnarfirði var 4,1%. Nú er áætlað að það hækki í 5,7%.

Veltufjárhlutfall, sem er veltufjárhlutfall sem hlutfall af skammtímaskuldum eru áætlaðar að verði 1,08 hjá A- hluta bæjarsjóðs en sú tala þarf að vera yfir 1 en talan sýnir hæfi sveitarfélagsins til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur næstu 12 mánuði.

Helstu framkvæmdir árið 2024

Áætluð fjárheimild til framkvæmda árið 2024 er tæplega 8,5 milljarðar króna.

Í fjárhagsáætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, svo sem umhverfismálum, samgöngum, íþróttaaðstöðu og húsnæðis- og fráveitumálum.

  • Haldið verður áfram frágangi á nýbyggingarsvæðum víðs vegar um bæinn, svo sem við malbikun, umferðaröryggismál, gerð stétta, stíga og leiksvæða og almenna grænkun svæða.
  • Unnið verður að endurgerð gatnamóta, gangstétta og gönguleiða, sem og endurnýjun eldri leiksvæða. Sérstöku fjármagni er veitt í að efla hjólreiðaleiðir.
  • Verið er að fjölga grenndarstöðvum og verður farið í frágang við þær.
  • Þá er lögð áhersla á að auka gróður í hverfum bæjarins.
  • Farið verður í ýmis verkefni, endurbætur og viðhald á skólahúsnæði og skólalóðum auk þess sem hafinn er undirbúningur að nýjum leik- og grunnskóla í Hamranesi.
  • Þá hefst endurskipulagning á húsnæði ráðhússins.
  • Áfram verður haldið með endurbætur á aðstöðu Suðurbæjarlaugar og undirbúningur hefst að hönnun á útisvæði við Ásvallalaug.
  • Unnið er að uppbyggingu á nýju knatthúsi á félagssvæði knattspyrnufélagsins Hauka en áætlanir gera ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun í lok árs 2024.
  • Einnig er unnið að byggingu nýrrar reiðhallar á félagssvæði hestamannafélagsins Sörla og mun henni ljúka á næstu tveimur árum.
  • Lokið verður við gerð hybrid-grasvallar Fimleikafélags Hafnarfjarðar.
  • Aðstaða í íþróttahúsinu við Strandgötu verður lagfærð.

Afgreiðsla fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar en fjárhagsáætlunin nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2025-2027. Gert er ráð fyrir að seinni umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn verði mánudaginn 4.  desember nk.

Skoða má fjárhagsáætlunina í heild hér.

Skatttekjur eru ekki sundurliðaðar í fjárhagsáætluninni og því ekki hægt að sjá hvert hlutfall fasteignaskatts er af heildartekjum. Óskað hefur verið eftir þeim upplýsingum en svar hefur ekki borist við vinnslu fréttarinnar. Fréttin verður uppfærð þegar þær upplýsingar berast.

Uppfært 14.11.2023

Fasteignaskattar verði 16,8% af skatttekjum

Í svari frá Hafnarfjarðarbæ við fyrirspurn um sunduliðun skatttekna kemur fram að með skatttekjum eru auk útsvars og fasteignaskatts teknar með tekjur af lóðarleigu sem virðist ekki vera í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga enda er lóðarleiga eins og nafnið ber með sér ekki skattur. Í skýringum með ársreikningi Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir 2022 segir hins vegar: „Til skatttekna heyra útsvar, fasteignaskattur og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, auk annarra tekna sem hafa ígildi skatta, svo sem lóðarleiga.“

Lóðarleiga sem hluti af skatttekjum?

Í úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 21.12.2005 kemur fram að lóðarleiga byggist á samningi milli aðila og engin almenn lagaákvæði gildi um lóðarleigu. Þar segir m.a.: „Engin almenn lagaákvæði gilda um lóðarleigu heldur byggist lóðarleiga að jafnaði á samningi milli sveitarfélags og viðkomandi aðila sem er úthlutað lóð.“ Ekki er hægt að leggja á skatta nema lagaheimild sé fyrir þeim.

Í fjárhagsáætlun kemur fram að heildarskattekjur séu áætlaðar 31.490.362.000 kr. fyrir árið 2024. En í svari Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að af því er útsvar áætlað um 25,9 milljarðar kr. eða 82,2%, fasteignaskattar eru áætlaðir um 5,3 milljarðar kr. eða 16,8% og 10,9% af heildartekjum A- og B-hluta en 11,9% af heildartekjum A-hluta. Þá er áætluð lóðarleiga um 962,7 milljónir kr. eða um 3% af skatttekjum.

Reyndar eru fasteignaskattar ofreiknaðir í svarinu og það skýrt með því að inni í þessari tölu eru millifærslur fasteignaskatta sem eru lagði á eigin eignir Hafnarfjarðarkaupstaðar í A-hluta.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2