fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkMálefni knattspyrnuhúsa tekið af dagskrá síðasta bæjarstjórnarfundar

Málefni knattspyrnuhúsa tekið af dagskrá síðasta bæjarstjórnarfundar

Í upphafi fundi bæjarráðs sem hófst 17. maí sl. og var fram haldið þann 18. maí en lauk ekki fyrr en þann 22. maí var á dagskrá erindi eftirfarandi drög að viljayfirlýsingu milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Knattspyrnufélagsins Hauka:

„Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar 2018-2021 er gert ráð fyrir að á árinu 2017 verði framkvæmdir hafnar við uppbyggingu íþróttamannvirkja samkvæmt tillögum Íþróttabandalags Hafnarfjarðar sem samþykktar voru á þingi bandalagsins árið 2017. Samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að á árunum 2018—2021 verði unnið að byggingu knatthúss hjá Knattspyrnufélaginu Haukum á Ásvöllum og er í fjárhagsáætluninni gert ráð fyrir að á árinu 2018 verði gert samkomulag um undirbúning og hönnun þess verkefnis.

Með vísan til framangreinds lýsa aðilar yfir sameiginlegum vilja um að láta vinna nýtt deiliskipulag fyrir Ásvelli með staðsetningu knatthúss í huga. Gert er ráð fyrir að knatthúsið rísi norðaustan við núverandi keppnisvöll félagsins .

Samhliða framangreindu munu aðilar setja á laggirnar undirbúningsnefnd sem mun fjalla um gerð og hönnun hússins og skal stefnt að því að nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir 1. nóvember 2018.

Jafnframt mun Knattspyrnufélagið Haukar afsala sér lóðarskika, vestan íþróttamiðstöðvar, til bæjarins og mun núverandi lóð Knattspyrnufélagsins Hauka því minnka til samræmis við það. Aðilar eru sammála um að umræddur lóðarskiki verði ætlaður til annarra nota en byggingu íþróttamannvirkja.

Umrædd lóð Ásvellir 1 er í eigu Hafnarfjarðarbæjar en var úthlutað til Knattspyrnufélagsins Hauka árið 1989. Fyrir liggur að formlegur lóðarleigusamningur vegna lóðarinnar hefur ekki verið undirritaður og eru aðilar sammála um að því þurfi að ljúka sem allra fyrst.

Þegar nýtt samþykkt deiliskipulag liggur fyrir og framangreint uppfyllt er gert ráð fyrir að gengið verði frá formlegum samningi milli aðila um undirbúning og hönnun byggingar knatthúss að Ásvöllum.“

Viljayfirlýsing

Olli þessi tillaga miklum titringi á fundinum skv. heimildum blaðsins og voru þrjár bókanir lagðar fram vegna málsins:

Guðlaug Kristjánsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun þar sem ýjað er að því annars vegar að hús á Ásvöllum þurfi ekki endilega að vera einangrað og upphitað og hins vegar að fylgt verði tímaáætlun í forgangsröðun Íþróttabandalags Hafnarfjarðar sem gerir m.a. ráð fyrir byggingu knatthúss á Ásvöllum á árunum 2018-2021:

„Skjól fyrir knattspyrnuiðkun barna á Ásvöllum er þarft verkefni hvort sem horft er til skipulags, umferðar, umhverfis, lýðheilsu eða fjölskylduvænna þátta. Samþykki mitt á forgangsröðun ÍBH sem grundvelli fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum byggir á því að sú tímaáætlun sem henni fylgdi gangi eftir, meðal annars hvað byggingu knatthúss á Ásvöllum varðar. Mikilvægt er að uppbygging íþróttamannvirkja sé unnin á ábyrgan hátt í samvinnu bæjaryfirvalda og íþróttahreyfingarinnar í heild.“

Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun þar sem sérstaklega er tekið á fjárhagslegum forsendum en í fjárhagsáætlun til ársins 2021 er takmarkað fé ætlað til byggingar íþróttamannvirkja og ljóst að það dugar ekki til þeirra mannvirkja sem eru á forgangsröðun ÍBH:

„Langtímafjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar gerir ráð fyrir tiltekinni upphæð til uppbyggingar íþróttamannvirkja á grunni forgangsröðunar ÍBH. Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar hafa óskað eftir faglegri umsögn og greinargóðum upplýsingum um fjárhagslegar forsendur þessara verkefna í samræmi við fyrirspurnir sem lagðar voru fram á fundinum. Mikilvægt er að uppbygging íþróttamannvirkja sé unnin á ábyrgan hátt og forsendur sem gefnar eru í fjárhagsáætlun haldi.“

Áheyrnarfulltrúi Vinstri Grænna lagði fram eftirfarandi bókun þar sem tillögunni er hreinlega lýst sem kosningaáróðri:

„Í ljósi þess að aðeins eru nokkrir dagar til kosninga er gerð alvarleg athugasemd við framlagningu yfirlýsingar af þessu tagi af hálfu meirihluta. Að ætla að koma núna fram þegar nokkrir dagar eru eftir af kjörtímabilinu og samþykkja viljayfirlýsingu þar sem fram koma loforð fram í tímann, sem engin innistæða er fyrir finnst mér einfaldlega vera pólitík sem ég get ekki tekið þátt í og virðist ekki hafa annan tilgang en að stilla fólki upp sem annaðhvort fylgjendur eða andstæðingar uppbyggingar í íþróttamálum. Ég tel að fjárhagur sveitarfélagsins ráði ekki við byggingar á tveimur knatthúsum á sama tíma án þess að taka fyrir framkvæmdunum lán. Hér er ekki um annað að ræða en innantóm loforð enda ekkert í hendi með úrslit kosninga.“

Í fundargerð kemur fram að bæjarráð hafi samþykkt fyrirliggjandi viljayfirlýsingu með áorðnum breytingum en ekki kemur fram hvernig sú atkvæðagreiðsla fór fram og hvort atkvæðagreiðsla hafi farið fram!

Viljayfirlýsingunni ekki vísað til bæjarstjórnar og hún ekki á dagskrá bæjarstjórnar

Á næsta bæjarstjórnarfundi hefði ofangreind yfirlýsing átt að vera til afgreiðslu og á dagskrá fundarins en svo var alls ekki.

Á dagskrá fundarins var hins vegar mál merkt:  „1706255 – Uppbygging íþróttamannvirkja, aðstaða til knattspyrnuiðkunar“ sem var tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn 21. júní 2017 um byggingu knatthúsa í Kaplakrika og á Ásvöllum á árunum 2018-2021 þar sem gert væri ráð fyrir að árlega færi í verkefnið 300-400 milljónir kr. af eigin fé sveitarfélagsins.  Sú tillaga var hins vegar felld er fulltrúar Bjartrar framtíðar í meirihlutanum kusu gegn tillögu samstarfsflokks síns í málinu.

Í upphafi fundar var svo samþykkt tillaga um að taka þetta mál af dagskrá enda hafa menn áttað sig á því að ekki var hægt að taka gamla tillögu sem felld hafði verið upp aftur í bæjarstjórn með þessum hætti.

Hringlandahætti um loforð á byggingu knatthúsa lauk því með þessum hætti á kjörtímabilinu og verkefni nýrra bæjarstjórnar að taka afstöðu til málsins við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Gert er ráð fyrir knatthúsi s-a á svæði FH í Kaplakrika skv. skipulagi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2