Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi og varaþingmaður, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Margrét er 39 ára og hefur setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar frá árinu 2006, verið forseti bæjarstjórnar, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, formaður fjölskylduráðs og stjórnarformaður Sorpu Bs. Í dag á Margrét sæti í bæjarráði Hafnarfjarðarbæjar og fræðsluráði. Hún er með BA-próf í uppeldis- og menntunarfræðum og kennsluréttindi og stundar MA-nám í uppeldis- og menntunarsálfræði með áherslu á borgaravitund og lífssýn ungs fólks, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Ég tel að kraftar mínir og reynsla geti nýst vel fyrir Samfylkinguna í komandi kosningum, hafandi verið bæjarfulltrúi í Hafnarfirði í áratug og varaþingmaður Samfylkingarinnar sl. 3 ár. Ég hef mikinn áhuga á að láta til mín taka á vettvangi Alþingis og berjast fyrir málefnum barnafjölskyldna, á sviði menntamála, heilbrigðismála og umhverfismála.
Ungt fólk og umhverfi þess er mitt sérsvið og tel ég mikilvægt að hlúa vel að allri þeirri þjónustu sem að því snýr. Umhverfismál eru mér einnig hjartans mál og ég hef barist fyrir aukinni flokkun sorps, endurvinnslu og vitundarvakningu á því sviði. Jafnframt vil ég láta til mín taka við verndun lands og taka þátt í að gera hálendi Íslands að þjóðgarði,“ segir hún enn fremur í tilkynningu.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um framboðið á Facebooksíðu Margrétar Gauju.