Ekki var einhugur í meirihluta bæjarstjórnar þegar öðru sinni var lagt fyrir samningur um kaup Hafnarfjarðarbæjar á 55% hlut í tjaldhúsunum Risanum og Dvergnum af FH fyrir 200 milljónir kr.
Þegar málið kom fyrir bæjarstjórn í dag lagði forseti bæjarstjórnar fram dagskrártillögu um að málinu yrði vísað frá þar sem enn væri verið að vinna að málinu og niðurstaða lægi ekki fyrir.
Í atkvæðagreiðslu greiddu 7 bæjarfulltrúar með frávísunartillögunni en 4 greiddu atkvæði á móti henni.
Gerðu menn grein fyrir atkvæði sínu og sýndist sitt hverjum. Greiddu 4 úr meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Helga Ingólfsdóttir, Kristín Thoroddsen, Ólafur Ingi Tómasson og Unnur Lára Bryde en aðrir bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með frávísunartillögunni.
Var sumum mjög heitt í hamsi og sagði Helga Ingólfsdóttir þetta ekki boðleg vinnubrögð og sagðist líta á þetta sem valdbeitingu þar sem bæjarstjórn fjalli ekki um samning sem bæjarráð sé búið að vísa til bæjarstjórnar.
„Hvers konar stjórnsýsla er þetta eiginlega,“ spurði Ólafur Ingi Tómasson og spurði af hverju þessum samningsdrögum vísað úr bæjarráði í bæjarstjórn án þess að hann sé ræddur.
Greinilega er mikill ágreiningur um málið og bókuðu fjórmenningarnir um fundarsköp.