fbpx
Sunnudagur, nóvember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkNýi meirhlutinn leggur fram sex tillögur

Nýi meirhlutinn leggur fram sex tillögur

Engar afgerandi tillögur en marka stefnu

Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram sex tillögur á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag.

Fundurinn hefst um kl. 17 og má horfa á hann hér.

Ekki er hægt að segja að tillögurnar marki nein tímamót og margt hefur verið í umræðunni áður. Engar tillögurnar eru að fullu útfærðar og er ætlað að vinna að þeim á næstunni og sumar tillögurnar snúa að þáttum sem þegar eru í ferli eins og uppbygging á hafnarsvæðinu, starfsaðstaða í leikskólum og hreinsun í bænum.

Tekið er á viðhaldsmálum gamla Lækjarskóla en ekki á öðrum byggingum í bænum sem þarfnast mikils viðhalds.

1.     Aukinn afsláttur á gjöldum barnafjölskyldna

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur til að systkinaafsláttur á leikskólagjöldum verði aukinn frá og með næsta fjárhagsári og systkinaafsláttur á skólamáltíðum tekinn upp. Því er beint til fræðsluráðs að vinna að útfærslu tillögunnar. Lægri gjöld í þjónustu til barna er brýnt hagsmunamál barnafjölskyldna í bænum.

2.     Uppbygging á hafnarsvæðinu

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fylgja eftir þeim tillögum sem fram komu í nýlokinni hugmyndasamkeppni um Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Í tillögunum eru settar fram hugmyndir til uppbyggingar með iðandi mannlífi í sátt við atvinnustarfsemi á skipulagssvæðinu. Mikilvægt er að fylgja þessum tillögum eftir með áframhaldandi skipulagsvinnu.

3.     Hreinni og umhverfisvænni bær

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að áfram verði settur aukinn kraftur í hreinsun og fegrun bæjarins. Sérstök áhersla verði á hreinsun og umgengni á iðnaðarsvæðum bæjarins og lóðarhafar hvattir til að huga að umgengni á lóðum sínum. Hafnarfjarðarbær eykur fjármagn til fegrunar í þessum hverfum bæjarins og til viðhalds gatna og mannvirkja bæjarins. Hrein og snyrtileg iðnaðar- og þjónustuhverfi laðað fyrirtæki og viðskiptavini.

4.     Menntasetrið við Lækinn

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði úttekt á ástandi byggingar Menntasetursins við Lækinn (gamla Lækjarskóla) og viðhalds- og endurbótaþörf metin og kostnaðargreind. Einnig verði unnar tillögur að framtíðarstarfsemi í húsinu.

5.     Fjölmenningarráð Hafnarfjarðar og móttökuáætlun nýbúa

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gerð verði móttökuáætlun fyrir innflytjendur og að fjölmenningarráð verði tekið til skoðunar með það að markmiði að það hafi styrk til að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni og hagsmuni innflytjenda. Fjölskylduráði verði falið að taka málið til frekari skoðunar.

6.     Starfsaðstæður starfsmanna leik- og grunnskóla

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að áfram verði unnið að því að bæta starfsaðstæður kennara í leik- og grunnskólum með það að leiðarljósi að minnka álag í starfi og efla faglega forystu kennara og að farið verði í vinnu við að greina álagsþætti í störfum annarra starfsmanna.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2