Svo getur farið að níu flokkar bjóði fram lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Hafnarfirði í vor. Alþingiskosningarnar í október settu víða undirbúning fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á ís en Björt framtíð, Píratar, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa ákveðið hvernig valið verður á lista. Aðrir fara sér hægar en búast má við að línur skýrist í næsta mánuði. Kosið verður laugardaginn 26. maí nk.
Samfylkingin verður ekki með prófkjör eins og fyrir undanfarnar kosningar, heldur mun uppstillingarnefnd sem stjórn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gerir tillögu að, raða frambjóðendum á lista. Ljóst er að tveir af þremur bæjarfulltrúum flokksins verða ekki í framboði, þau Gunnar Axel Axelsson og Margrét Gauja Magnúsdóttir.
Hjá Sjálfstæðisflokknum lagði kjörnefnd fram tillögu um prófkjör sem fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna samþykkti í gær en flokkurinn hefur oftast verið með prófkjör.
Björt framtíð vinnur að uppstillingu á lista en óvíst er enn hvenær sú uppstilling verður tilbúin að sögn Guðlaugar Kristjánsdóttur oddvita flokksins. Segir hún fréttir af mögulegu sameiginlegu framboði með Viðreisn haf komið þeim á óvart.
Vinstri hreyfingin grænt framboð ákvað einróma á félagsfundi sl. mánudag að fara í uppstillingu við val á framboðslista félagsins í Hafnarfirði.
Framsóknarflokkurinn mun bjóða fram en ekki hefur enn verið ákveðið hvernig raðað verður á lista þó opið prófkjör sé ekki á dagskrá.
Píratar verða með lokað prófkjör á sama tíma og í öðrum sveitarfélögum, líklegast um mánaðamót febrúar, mars að sögn Elínar Ýrar Arnar Hafdísardóttur formanns Pírata í Hafnarfirði.
Miðflokkurinn stofnaði nýlega Miðflokksfélags Suðvesturkjördæmis og var Una María Óskarsdóttir kjörin formaður þess. Ekki hafa fengist neins svör um hvernig framboðsmálum flokksins verður háttað í Hafnarfirði. Uppfært 29.1.2018: Að sögn Unu Maríu Óskarsdóttur hefur ekki verið tekin ákvörðun um framboð, eða valið, en stefnt er að því að bjóða fram í stærstu sveitarfélögum landsins.
Hjá Viðreisn er verið að fara yfir málin og segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður flokksins að hér, eins og annars staðar, verði skoðað hvað skynsamlegast er að gera svo stefnumál Viðreisnar fái sem best notið sín. Geti það verið sér framboð eða í samvinnu við aðra.
Flokkur fólksins stefnir á framboð sem mun skýrast í byrjun febrúar en stofna á flokksfélag í SV-kjördæmi að sögn Guðmundar Inga Kristinssonar varaformanns flokksins.