fbpx
Miðvikudagur, janúar 22, 2025
HeimFréttirPólitíkRykið dustað af vondum ákvörðunum

Rykið dustað af vondum ákvörðunum

Jón Ingi Hákonarson skrifar:

Formaður bæjarráðs og formaður Skipulags og byggingaráðs hafa farið mikinn í gagnrýni sinni á oddvita Viðreisnar og varaáheyrnarfulltrúa Viðreisnar í skipulagsráði. Hafa þeir vænt okkur um að slá ryki í augu bæjarbúa með því að miðla tölum frá Samtökum iðnaðarins um hús í byggingu á Höfuðborgarsvæðinu. Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Til upprifjunar þá hefur Viðreisn bent á að samkvæmt talningu Samtaka Iðnaðarins þá er einungis verið að byggja 104 íbúðir í Hafnarfirði á meðan nágrannasveitafélög horfa á margfalt umfangsmeiri uppbyggingu. Til dæmis er verið að byggja 1.080 íbúðir í Kópavogi. Þá benti Viðreisn á að sama fólkið hefur borið ábyrgð á þessum málaflokki árum saman og benti á þau velþekktu sannindi að maður uppsker eins og maður sáir og þessi uppskerubrestur er afleiðing af þeirri forgangsröðun sem núverandi meirihluti ber ábyrgð á.

Í stað þess að fara blandaða leið þéttingar byggðar samhliða vinnu við ný úthverfi var fylgt hugmyndafræðinni „eitt egg – ein karfa“, öll áhersla var sett á að byggja nýtt úthverfi, en lítið var hugsað um aðrar leiðir. Ef maður leggur allt undir rautt en rúllettuhjólið skilar kúlunni á svörtum þá getur maður, eins og þeir félagar gera, kennt óheppni um. En það hefði líka mátt dreifa áhættunni. Það er þessi ákvarðanataka sem Viðreisn gagnrýnir og þeim svíður undan.

Bærinn tók lán til að skipuleggja og hefja framkvæmdir í Skarðshlíð og veðjaði á að öll púsl myndu að lokum falla á rétta staði, m.a. að umræddar háspennulínur færu. Það hefur enn ekki gerst. Það var ákveðið að úthluta lóðum til nokkurra verktaka frekar en að fá marga uppbyggingaraðila á svæðið. Það er mín trú og margra í byggingargeiranum að þetta hafi verið mistök.

Þessi mistök hafa kostað bæjarsjóð milljarða í tekjumissi og það þarf að axla ábyrgð á því. Það hefði verið skynsamlegt að fara strax í vinnu við þéttingu byggðar og fjölga þannig íbúum þar sem þjónustu þyrfti ekki að byggja frá grunni og styrkja þannig tekjustofna bæjarins. Þéttingarskýrslan er m.a. hugmyndabanki unnin af fagfólki og þar er af mörgu að taka.

Sú hugmynd þeirra félaga að fulltrúar minnihlutans megi ekki gagnrýna slæmar ákvarðanir í fortíðinni nema með því að fyrst koma með tillögur að verkefnum er fráleit. Það er hlutverk minnihlutans að veita aðhald og gera athugasemdir þegar honum sýnist rangar ákvarðanir hafa verið teknar.

Síðasti áratugur hefur verið varðaður fögrum fyrirætlunum og svo sannarlega hefur margt og mikið verið í pípunum. Viðreisn styður mörg góð þéttingarverkefni sem er verið að vinna að í dag. Það breytir því þó ekki að þessi verkefni hefði auðveldlega mátt setja af stað fimm árum fyrr en raunin varð.

Fulltrúar Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar vilja meina að það sé ábyrgð stjórnmálamanna hvernig staðan er, en eins lesendur Fjarðarfrétta hafa tekið eftir þá telja formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarráðs það vera tilviljun og óheppni. Þess vegna erum við ósammála.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn.

 

Greinin birtist 8. maí í 17. tbl. Fjarðarfrétta.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2