Á fundi bæjarráðs sl. fimmtudag var lögð fram drög að kaupsamningi um kaup Hafnarfjarðarbæjar á 55% af eignarhluta Fimleikafélags Hafnarfjarðar í tveimur knatthúsum (tjöldum), Risanum og Dvergnum. Samkvæmt drögunum yrði seljandi áfram eigandi að 45% hluta.
Ráðstafað inn á lokaðan reikning í Landsbankanum
Í samningsdrögunum eru ströng ákvæði um hvert kaupfjárhæðinni skuli ráðstafað, inn á lokaðan reikning hjá Landsbanka Íslands sem ráðstafaði henni til uppgreiðslu á yfirdrætti, til niðurgreiðslu á skuldum og til greiðslu á skuld við aðalstjórn FH.
Fjarðarfréttir sendi bæjarstjóra, Haraldi L. Haraldssyni fyrirspurnir um það hvers vegna Hafnarfjarðarbær væri að kaupa eignarhlutann á 200 milljónir kr., hvers vegna verið væri að greiða upphæðina inn á lokaðan reikning, hvaða 22 milljón kr. skuld væri við aðalstjórn FH og hvort FH-knatthús ehf. væri ekki einnig eignaraðili og hvers vegna það væri ekki aðila að samningnum.
Samskiptastjóri bæjarins, Árdís Ármannsdóttir, svaraði fyrirspurninni að beiðni bæjarstjóra og sagði að ekki væri tímabært að svara þessu þar sem ekki væri búið að klára þetta mál og ganga til samninga.
Þetta svar kom í morgun en samningurinn er á dagskrá bæjarstjórnar á morgun.
Fjarðarfréttir hefur fyrir því heimildir að megin ástæða þessa samnings sé mjög óhagstæður samningur um leigu í Risanum og hagstæðara væri talið að Hafnarfjarðarbær ætti húsið að meirihluta og ræki það. Þetta kemur þó hvergi fram í afgreiðslu málsins og sá samningur gilti aðeins um Risann.
Formaður FH var með svörin
Í samtali við Fjarðarfréttir segir Viðar Halldórsson, formaður FH, að frumkvæðið hafi upphaflega vissulega komið frá Hafnarfjarðarbæ. Segist hann meðvitaður um að Hafnarfjarðarbær hafi talið núverandi samning um leigu á Risanum óhagstæðan bænum og því hafi orðið að samkomulagi að gera þennan samning. Ástæðuna fyrir því að peningum sé ráðstafað inn á lokað reikning sé einfaldlega vegna áhvílandi veða Landsbankans og þetta sé að kröfu bankans en ekki Hafnarfjarðarbæjar. Upplýsti hann að 22 milljón kr. skuldin væri skuld FH-knatthúsa við aðalstjórn FH en FH-knatthús væri þinglýstur eigandi Dvergsins. Því yrði breytt og því væri samningurinn einungis milli Hafnarfjarðarbæjar og Fimleikafélags Hafnarfjarðar.