Skrifað var í dag undir samning við arkitektastofuna Úti og inni ehf. um hönnun á nýju hjúkrunarheimili við Sólvang.
Hönnunin hafði verið boðin út og átti STH teiknistofa ehf., fyrirtæki Sigurðar Þorvarðarsonar, byggingarfræðings og f.v. byggingarnefndarmanns í Hafnarfirði, lægsta tilboðið. Úti og inni ehf. sem átti næst lægsta tilboð kærði niðurstöðu Hafnarfjarðarbæjar um að semja við STH og taldi teiknistofuna ekki hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru um hönnunarreynslu. Úrskurðarnefnd útboðsmála staðfesti það með úrskurði sínum og því var niðurstaðan að semja við þann aðila sem átti lægsta tilboð þeirra sem uppfylltu skilyrði útboðsins.
Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis og framkvæmda og arkitektarnir Baldur Ó. Svavarsson og Jón Þór Þorvaldsson undirrituðu samning um hönnunina í upphafi fundar í verkefnanefnd um byggingu hjúkrunarheimilis.
Á að vera tilbúið 25. apríl 2018
Að sögn Helgu Ingólfsdóttur, formanns umhverfis- og framkvæmdaráðs, er stefnt að því að ljúka við byggingu hjúkrunarheimilisins 25. apríl 2018.
Vilja 20 rými til viðbótar á Sólvangi
Þá segir Helga að hart sé lagt að heilbrigðisráðherra að fá heimild til að bæta við 20 rýmum á Sólvangi til viðbótar þeim 60 rýmum sem fyrirhuguð eru í nýja hjúkrunarheimilinu. Segir Helga að sýnt hafi verið fram á að með þeirri stærð fáist mun hagstæðari rekstrareining sem eigi að vera hægt að reka á daggjöldunum.
Heilbrigðisráðherra hafnaði því að bæta 20 rýmum við á Sólvangi en Helga segist vongóð um að það náist og eru viðræður í gangi.
Rekstur minni eininga hefur gengið mjög illa og hefur Garðabær t.d. stefnt ríkinu til að endurgreiða bæjarfélaginu viðbótarkostnað sem hefur þurft til reksturs hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ sem tekið var í gagnið árið 2013.