fbpx
Miðvikudagur, janúar 22, 2025
HeimFréttirAtvinnulífReisugilli stórhýsis í miðbænum og Hafnarfjarðarbær undirritar kaupsamning

Reisugilli stórhýsis í miðbænum og Hafnarfjarðarbær undirritar kaupsamning

Mestu framkvæmdir í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi

Eigendur Fjarðar fögnuðu í gær stórum áfanga þegar viðbygging við verslunarmiðstöðina Fjörð varð fokheld, vel á undan áætlun.

Í nýbyggingunni eru 2.500 m² verslunar- og þjónusturými, 18 hótelíbúðir, 31 lúxusíbúð, bókasafn og 1.200 m² bílastæðakjallari, alls um 8.700 m². Verður þá heildarhúsnæðið um 21.000 m².

GG verk hefur séð um uppbyggingu hússins og arkitektar að byggingunni eru ASK arkitektar og eftirlit og byggingarstjórn verkefnisins er í höndum Strendings ehf. Kaupverð er um 1,1 milljarður króna.

Hafnarfjarðarbær og 220 Fjörður undirrita kaupsamning

Frá undirritun kaupsamningsins, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðar, Haraldur Jónsson og Benedikt Steingrímsson frá 220 Fjörður ehf.

Hafnarfjarðarbær og 220 Fjörður ehf. undirrituðu á sama tíma kaupsamning að 1.700 m² húsnæði undir Bókasafn Hafnarfjarðar sem flyst af mörgum hæðum að Strandgötu 1 á aðra hæð Fjarðar. Nútímavæða á hið 102 ára gamla bókasafn bæjarins og laga að breyttum kröfum og þörfum í samfélaginu. Bókasafnið verður í anda nútímabókasafna; margmiðlunarsetur sem býður upp á fjölbreytta notkun, sköpun og samveru.

Bókasafnið verður á 2. hæðinni, að stærstum hluta í eldri byggingunni en um 550 m² verða í nýbyggingunni. Verða miklar breytingar í gamla Firði þegar þessar tvær byggingar verða samþættar.

Bókasafnið verður á 2. hæð í Firði á svæði sem litað er með gráum lit.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti samhljóða á fundi sínum 19. júní sl. kauptilboð bæjarins í húsnæðið en kaupverðið er um 1,1 milljarður króna. Stefnt er að því að húsnæðið verði afhent bókasafninu snemma árs 2026.

„Við horfum til þess að bókasafnið okkar eflist verulega og verði mikið aðdráttarafl fyrir bæjarbúa á öllum aldri. Það verði samkomustaður fyrir okkur til að hittast, auðga og næra andann,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í tilkynningu.

Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri 220 Fjarðar, segir að nýja bókasafnið muni án efa hafa mikla þýðingu fyrir nýjan og breyttan Fjörð. „Við sjáum fyrir okkur að það muni hafa mikið aðdráttarafl. Nú er bókasafnið að fá um 125 þúsund gesti á ári. Við teljum ekki ósennilegt að gestafjöldinn þrefaldist. Þetta verður samfélagshús enda Fjörðurinn hinn miðbærinn á höfuðborgarsvæðinu.“ 

Opnuð hefur verið ný upplýsingasíða um bygginguna: 220midbaer.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2