Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu á fréttamannafundi í Ráðherrabústaðnum rétt í þessu, aðgerðir í efnahagsmálum til að mæta áhrifum COVID-19.
Sagði Katrín okkur vel í stakk búin til að takast á við skell sem er framundan en sagði að forsendur fjármálastefnunnar væru brostnar.

Bjarni sagði augljóst að m.a. ferðaþjónustan fyndi fyrir þessum aðstæðum. Sagðist hann trúa að þetta væri tímabil sem gengi yfir. Kynnti hann aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
Tilkynning frá ríkisstjórninni
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá var tilkynnt að vegna gjörbreyttra efnahagslegra forsendna yrði fjármálaáætlun lögð fram í maí.
Lífsgæði varin
COVID-19 faraldurinn mun hafa bein áhrif á atvinnulíf og stöðu ríkissjóðs. Geta þjóðarbúsins til að takast á við vandann er góð, en þó er ljóst að hagkerfið er berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér um ræðir. Þegar má merkja áhrif faraldursins í efnahagslífinu.
Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar. Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:
- Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
- Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
- Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
- Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
- Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
- Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
- Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.