fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirRimmugýgur fær nú aðstöðu í húsi á Hörðuvöllum

Rimmugýgur fær nú aðstöðu í húsi á Hörðuvöllum

Víkingafélagið Rimmugýgur, sem er félag áhugafólks um menningu og bardagalist víkinga, hefur lengi verið á hrakhólum með sína aðstöðu en félaginu fylgir mikið dót.

Hefur félagið meðal annars verið í Straumi, í gamla Dverg, átti að fara í gamla Kató en endaði svo á Staðarbergi 6.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur nú samþykkt að láta félagið hafa til afnota húsnæðið að Hörðuvöllum 1, þar sem starfsemi Læks hefur verið undanfarið. Er heildarflatarmál hússins 165,3 m² en auk þess fær félagið að halda um 45 m² af bílskúrnum í Staðarbergi.

Fær félagið húsnæðið endurgjaldslaust en kostnaðurinn er metinn á samtals um 4 milljónir kr. á ári, um 3,7 millj. kr. í leigu og 276 þús kr. í rafmagn og hitunarkostnað.

Rimmugýgur hefur verið með öfluga starfsemi undanfarin ár og tóku nýlega við Víkingahátíðinni í Hafnarfirði sem hafði verið á forsjá Fjörukráarinnar en Rimmugýgur hafði tekið virkan þátt í.

Fólk á öllum aldri hefur tekið þátt í starfi Rimmugýgs en hér má sjá Úlfar Daníelsson, einn af stofnendum félagsins með barnabörnum sínum en Úlfar varð bráðkvaddur fyrir skömmu.

Skv. samningnum skuldbindur Rimmugýgur sig til þess að standa fyrir starfsemi sbr. starfsáætlun á sinn kostnað sem mun m.a. samanstanda vinnustofum í handverki/handverkshópum og bardagaæfingum. Rimmugýgur skal hafa menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar að leiðarljósi í sínu starfi og skuldbindur sig til þess að standa að Víkingahátíð og koma að skipulagningu og framkvæmd viðburða í Hafnarfirði, s.s. 17. júní, á Björtum dögum og fl.

Í samningi við félagið kemur fram að merki Hafnarfjarðarbæjar sem aðalstyrktaraðila starfseminnar skuli birt á öllu útgefnu efni Rimmugýgjar. Þá vekur athygli að í samningnum eru ákvæði um að viðburðir skulu kynntir með auglýsingum í fjölmiðlum eða öðrum sýnilegum hætti á sama tíma og Hafnarfjarðarbær nýtir ekki hafnfirska fjölmiðilinn Fjarðarfréttir til að kynna sína viðburði.

Skoða má samninginn hér.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2