fbpx
Mánudagur, janúar 6, 2025
HeimFréttirRio Tinto fær ekki lengur að merkja búninga barna á grundvelli nýs...

Rio Tinto fær ekki lengur að merkja búninga barna á grundvelli nýs samnings

RIo Tinto og Hafnarfjarðarbær greiða 10 milljónir kr. hver 2018

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær nýjan þríhliða samning Hafnarfjarðarbæjar, Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og Rio Tinto á Íslandi hf. um eflingu íþróttastarfs iðkenda íþróttafélaganna í Hafnarfirði, yngri en 18 ára.

Fræðsluráð hafði samþykkt samninginn á fundi sínum 13. desember sl. með tveimur atkvæðum en tveir sátu hjá.

Engar auglýsingar

Slíkur samningur hefur verið í gildi en það er nýlunda að í samræmi við leiðbeinandi reglur Umboðsmanns barna og Talsmanns neytenda um að vernda eigi börn fyrir auglýsingum og annarri markaðssókn verður óheimilt að semja um merkingar á keppnisstöðum og íþróttabúningum barna og unglinga á grundvelli samningsins.

Með síðasta samningi frá 2013 var viðauki með samningnum með eftirfarandi ákvæðum auk ítarlegra sérákvæði fyrir hvert félag:

7. Íþróttafélög sem njóta styrkja skv. þessum samningi skulu;
 á vefsíðu sinni birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf .”
− á bréfsefni sínu birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf < nafn félags >.”
− á öllu kynningarefni sem varðar barna- og unglingastarf félagsins, t.d. bæklingum og auglýsingum, birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf .”

Rio Tinto hefur fylgt því fast eftir á grundvelli eldri samnings að merki félagsins sé á keppnisbúningum og t.d. á auglýsingum frá félögunum. Hefur þetta verið gagnrýnt og mörgum hefur misboðið að á grundvelli samnings sem Hafnarfjarðarbær gerir skuli vera skylt að bera merki stórfyrirtækis á búningum barna.

Markmið samnings þessa er að efla íþróttastarfið í Hafnarfirði þannig að það verði áfram
kraftmikið og bæjarbúum til heilla. Með stuðningi bæjarins við íþróttahreyfinguna með þessum hætti ber íþróttafélögum að halda árgjöldum yngri iðkenda sinna í hófi. Samningur þessi á að efla fagmennsku íþróttafélaganna við kennslu og þjálfun barna og unglinga þannig að þjónustuþáttur þeirra við bæjarbúa verði aukinn og bættur. Samningurinn á einnig að efla innra starf íþróttafélaganna til framfara og framtíðaruppbyggingar á sviði þjálfunar og kennslu innan hreyfingarinnar. Með samningi þessum heita íþróttafélögin því að stúlkur og drengir njóti jafnra tækifæra, þeim sé veitt jöfn hvatning og þau fái sömu möguleika til að stunda íþróttir hjá félögunum. Við stefnumótun og þjálfun verður jafnframt lögð áhersla á jafnan hlut og aðgang kynjanna að þáttum eins og fjármagni, tíma og upplýsingum.

Skv. samningnum fá aðildarfélög ÍBH greitt rekstrarframlag sem miðast við fjölda iðkenda 18 ára og yngri.

Taka skal til hliðar af heildarfjárframlaginu eina milljón króna sem rennur til þeirra félaga sem ná bestum árangri í að jafna þátttökuhlutfall kynjanna á milli ára. Skal hálf milljón króna renna til þess félags þar sem hlutfall þess kyns, sem hallaði á, hefur
aukist um flest prósentustig á milli ára. Hálf milljón króna skal renna til þess félags sem bætt hefur við flestum iðkendum af því kyni sem hallaði á.

Íþróttafélög geta í lok ársins sótt um hækkandi styrk vegna hærri menntunarstigs þjálfara og aukastyrkur er veittur til íþróttafélags og/eða deildar þess sem útbúið hefur námsskrá eða heildræna æfingaáætlun fyrir starfsemi sína við þjálfun og kennslu yngri en 18 ára iðkenda sinna og fylgir henni.

Framlag Rio Tinto hf. fyrir árið 2017 er 9.000.000 kr. sem greiðist við undirritun samnings og verður 10.000.000 kr. frá og með árinu 2018.
Framlag Hafnarfjarðarbæjar miðast við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar og er kr. 9.000.000 fyrir árið 2017 og hækkar í kr. 10.000.000 frá og með 2018.

Samningurinn gildir frá 1. janúar árið 2017 og má endurskoða árlega til dæmis
með tilliti til iðkendafjölda, umfangs og þjónustuþáttar íþróttafélaganna. Samningurinn í heild sinni verður endurskoðaður í september 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2