„Ég var að fá þær frábæru fréttir að ég er að fara að keppa í Tókýó á Ólympíuleikunum,” tilkynnti hafnfirski sundkappinn Róbert Ísak Jónsson nú fyrir skömmu.
Keppir hann í flokki S14, á Ólynmpíuleikum fatlaðra, Paralymics, sem eru 24. ágúst til 5. september.
Róbert Ísak hefur unnið markvisst að því að komast á leikana og lagt mikið á sig og er nú að uppskera eftir því. Róbert Ísak hefur verið mjög sigursæll undanfarin ár og hlotið fjölmargar viðurkenningar og nú fyrr í júní var hann kjörinn íþróttamaður Fjarðar.
Róbert hefur náð lágmörkum í 4 af 5 sundgreinum sem sundfólk í flokki S14 mega synda á Paralympics sem er glæsilegur árangur.
Róbert keppir bæði fyrir Sundfélag Hafnarfjarðar og íþróttafélagið Fjörð.
Þrír sundmenn frá Íslandi keppa á Ólympíuleikum fatlaðra og tveir frjálsíþróttamenn.
Félagi hans í Sundfélagi Hafnarfjarðar Anton Sveinn McKee keppir á Ólympíuleikunum sem hefjast 23. júlí í Tókýó og er hann annar tveggja Íslendinga sem náð hafa keppnisrétt á þeim leikum en Ásgeir Sigurgeirsson skotíþróttamaður náði lágmarkinu nýlega.