Rótarýdagurinn er haldinn á laugardag og taka þátt í honum rótarýklúbbar víðs vegar um land. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar vekur athygli á starfi síns klúbbs með listsýningu í Ástjarnarkirkju og Rótarýmessu.
Listsýning í Ástjarnarkirkju
Á sýningunni verða til sýnis fjölmörg listaverk og handverk rótarýfélaga í klúbbnum og látinna rótarýfélaga. Meðal kunnra listamanna má nefna Gunnar Hjaltason, Bjarna Jónsson og Sigurbjörn Kristinsson en þeir voru afkastamiklir listamenn og sýndu víða. Gunnar teiknaði iðulega á klúbbfundum með tússpenna á servíettur, landslagsteikningar sem tengdust oft sessunautum hans sem hann svo gaf í lokin. Bjarni teiknaði alla klúbbfélaga og eru til skemmtilegar teikningar eftir hann. Sigurbjörn átti margar myndir á jólamerkjum klúbbsins sem og hinir tveir en einnig Níels Árnason sem kenndur var við Hafnarfjarðarbíó.
Af núverandi klúbbfélögum sem eiga verk á sýningunni má nefna Sigurð Einarsson arkitekt, J. Pálma Hinriksson ráðgjafa, Daníel Sigurðsson hönnuð, Ingvar Jónsson fv. íþróttafulltrúa og Trausta Sveinbjörnsson, rafiðnfræðing.
Sýningin verður opnuð á laugardag kl. 14 og stendur til kl. 17 í Ásvallakirkju en Rótarýmessa verður kl. 11 á sunnudaginn en sýningin verður opin þá til kl. 14.
Tveir rótarýklúbbar í Hafnarfirði
Tveir rótarýklúbbar eru starfandi í Hafnarfirði, Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar sem stofnaður var 1946 og Rótarýklúbburinn Straumur sem stofnaður var 1997. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar fundar vikulega í hádeginu á fimmtudögum í Turninum í Firði en Straumur fundar kl. 7 á morgnana á fimmtudögum í Safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Hafnarfirði.
Starfsgreinaklúbbar
Rótarý er hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu. Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur sem er starfandi í meira en 200 löndum í öllum heimsálfum.
Félagar eru rúmlega 1,2 milljónir í um 35 þúsund klúbbum.
Þessi alþjóðlegu samtök standa fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðla að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetja til góðvildar og friðar í heiminum. Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“.
Á Íslandi er 31 rótarýklúbbur með um 1300 félaga. Í klúbbunum er lifandi starf og vikulegir fundir með fróðlegum fyrirlestrum og umræðu. Reynt er að hafa fulltrúa sem flestra atvinnugreina í hverjum klúbbi og koma klúbbfélagar með tillögur um nýja félaga. Félagar eru á öllum aldri og af báðum kynjum. Rótarýfélagi getur sótt rótarýfund hjá hvaða rótarýklúbbi sem er í heiminum.
Fróðleikur á fundum
Rótarýfélagar leggja áherslu á að kynnast viðfangsefnum hinna ýmsu starfsstétta og fara í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir til að bæta við þekkingu sína. Félagar í klúbbunum hafa tækifæri að fræðast um athyglisverða hluti hvers tíma og taka þátt í umræðum um þá á fundum sínum. Vandaðir fyrirlestrar um mikilvæg mál á öllum sviðum þjóðlífsins eru aðdráttarafl, sem ásamt öðru laðar fólk til þátttöku.
Fjórprófið
Árið 1932 kom fyrst fram Fjórpróf rótarýfélaga, samviskuspurningar sem félagar voru voru hvattir til að spyrja sig við ákvarðanatökur í starfi sínu. Það var samið af rótarýfélaganum Herbert J. Taylor sem síðar varð heimsforseti Rótarý. Rótarýhreyfingin gerði Fjórprófið að formlegum þætti í starfinu og víða er farið með það í lok funda. Það hefur verið þýtt á flest tungumál og er í íslenskri þýðingu svona:
- Er það satt og rétt?
- Er það drengilegt?
- Eykur það velvild og vinarhug?
- Er það öllum til góðs.