fbpx
Fimmtudagur, janúar 2, 2025
HeimFréttirSamið um tvær nýjar skíðalyftur í Bláfjöllum

Samið um tvær nýjar skíðalyftur í Bláfjöllum

Samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir um 5,2 milljarða kr. fjárfestingu í innviðum vegna skíðaiðkunar til ársins 2026.

Markmið uppbyggingarinnar er að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir alla hópa skíðaiðkenda. Gert er ráð fyrir því að settar verði upp nýjar stólalyftur, Gosi og Drottning, í Bláfjöllum, en auk þess er m.a. gert ráð fyrir snjóframleiðslu á skíðasvæðunum, nýrri toglyftu í Kerlingardal, lyftu í Eldborgargili og Skálafelli auk uppbyggingar á skíðagöngusvæði.

Verkefnahópur hefur verið starfræktur á vettvangi SSH til þess m.a. að undirbúa verkefnin og fylgja þeim eftir. Þá hefur verið ráðinn verkefnastjóri sem starfa mun með verkefnahópnum og stjórnendum skíðasvæðisins m.a. til að fylgja eftir samningum, hönnun og framkvæmd ásamt almennu utanumhaldi verkefnisins.

Nýjar lyftur 2022 og 2023

Í fyrsta áfanga verkefnisins hefur verið samið við Doppelmayr skíðalyftur ehf., sem var lægstbjóðandi í samkeppnisútboði, um kaup og uppsetningu á skíðalyftunum Gosa, sem áætlað er að verði afhent á árinu 2022, og Drottningu, sem áætlað er að verði afhent á árinu 2023. Undirbúningsvinna vegna framkvæmdanna er þegar hafin og gengur samkvæmt áætlunum. Heildarkostnaður af uppsetningu lyftna og tengdum verkefnum í fyrsta áfanga er áætlaður um 2,4 milljarðar kr.

Í tilefni þessa skrifuðu fulltrúar stjórnar SSH og Doppelmayr á Íslandi undir samning aðila. Við sama tækifæri fór fram kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum fyrir helstu hagsmunaaðilum, s.s. formönnum skíðafélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Undirritun samnings. Frá vinstri: Björg Fenger fulltrúi í Samráðsnefnd skíðasvæðanna og verkefnahópi um framkvæmdirnar, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Gunnar Einarsson formaður stjórnar SSH, Ómar Ívarsson og Ingvar Ívarsson frá Doppelmayr skíðalyftum, Hildigunnur Hafsteinsdóttir lögfræðingur SSH.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2