Sex stöðugildi vantar í Skarðshlíðarleikskóla – Skert starfsemi

Skert starfsemi hefur verið í átta leikskólum undanfarið

420
Leikskólabörn að leik á Stekkjarási

Alls vantar að manna 22 stöðugildi í 10 leikskólum Hafnarfjarðar skv. upplýsingum sem lagðar voru fram á fundi fræðsluráð í gær.

Þar segir að allir skólarnir séu með grunnmönnun en stöðugildin sem þarf að manna séu til ýmis konar afleysinga svo sem vegna undirbúnings.

„Alls hafa 8 leikskólar þurft að skerða vistun frá áramótum. Einungis hefur þurft að loka frá kl. 9:00 að morgni í 2 skólum. Aðrir skólar hafa lokað frá 12:00-15:00. Því hefur verið um skerta daga að ræða,“ eins og segir í svari þróunarfulltrúa leikskóla við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar í fræðsluráði.

Vildi ekki gefa upp hvar mesta skerðingin var

Meðal leikskóla sem þurft hafa að skerða þjónustu er Skarðshlíðarleikskóli en þar vantar að manna 6 stöðugildi og hafa foreldrar í tvær vikur aðeins getað fengið fjögurra daga þjónustu á viku og í öðrum skóla sem ekki fékkst uppgefið hver væri, hefur í fáum tilvikum þurft að skerða þjónustuna um einn dag. Í hinum 6 leikskólanum hefur þegar nauðsyn hefur krafist verið nauðsynlegt að stytta vistun og hefur þeim leikskólum verið lokað á tímabilinu  frá kl. 12 til 15. Þróunarstjóri leikskóla vild ekki gefa upp hvaða skólar hefðu þyrft að skerða um heilan dag í viku en staðfesti þó að Skarðshlíðarskóli væri annar þeirra.

Erfitt fyrir foreldra

Erfitt hefur verið fyrir foreldar þegar skerða hefur þurft dvalartíma barna á leikskóla og sum hafa átt í miklum vandræðum að komast frá vinnu til að sækja börn sín fyrr. Sérstaklega erfitt hefur það verið fyrir þá foreldra barna sem aðeins hafa fengið 4 daga vistun.

Viðbót í starfsmannahóp leikskólanna fagnaðarefni

Í bókun meirihluta fræðsluráðs (sem ekki kemur fram í fundargerð hver myndar) segir m.a.: „Það er miður að loka hafi þurft deildum í tveimur leikskólum á ákveðnum dögum og að hluta til í 6 leikskólum vegna manneklu en enn vantar að manna stöður vegna til dæmis undirbúningstíma, afleysinga, fjarveru starfsmanna til náms í leikskólafræðum og veikinda. Á undanförnum vikum hefur bæst í starfsmannahóp leikskólanna sem er mikið fagnaðarefni og er það trú okkar að þær aðgerðir sem ráðist var í séu að skila tilætluðum árangri.“

Leikskólar sem eru ekki fullmannaðir:

  • Skarðshlíðarleikskóli – 6 ómönnuð stöðugildi
  • Hlíðarendi – 4,5 ómönnuð stöðugildi
  • Stekkjarás – 3 ómönnuð stöðugildi
  • Bjarkalundur – 2 ómönnuð stöðugildi
  • Víðivellir – 1,5 ómönnuð stöðugildi
  • Hlíðarberg – 1 ómönnuð stöðugildi
  • Hraunvallaleikskóli – 1 ómönnuð stöðugildi
  • Hvammur – 1 ómönnuð stöðugildi
  • Hörðuvellir – 1 ómönnuð stöðugildi
  • Vesturkot – 1 ómönnuð stöðugildi

Ummæli

Ummæli