fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimFréttirSigrumst á mænusótt með Rótarý!

Sigrumst á mænusótt með Rótarý!

Í dag er alþjóðlegur dagur baráttunnar gegn lömunarveiki. Rótarýhreyfingin hefur helgað sig þessu verkefni um langt skeið og lagt gífurlegar upphæðir til málefnisins í samstarfi við fjölmarga aðila.

„End Polio Now“ er yfirskrift átaksins og hefur tilfellum lömunarveikismits eða mænusóttar sem veikin er líka kölluð, fækkað um 99,9% síðan 1988 er baráttan hófst.

Starf Rótarýhreyfingarinnar hófst strax í kringum 1979, þegar hreyfingin styrkti bólusetningu um 6 milljóna barna á Filippseyjum.  Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti því yfir árið 1988, að stefna yrði að útrýmingu lömunarveiki í heiminum

Engin lækning er til við lömunarveiki en auðveldlega má koma í veg fyrir smit með bólusetningu en veikin herjar helst á börn undir 5 ára aldri.

Enn landlæg í tveimur löndum

Í dag er veikin landlæg í aðeins tveimur löndum en veikin hefur komið upp m.a. í Gaza, þar sem skelfilegt ástand ríkir vegna stríðsátaka. Veiran er enn að hluta landlæg í afskekktum héruðum í Afganistan og Pakistan. Stökkbreytt afbrigði veirunnar hafa einnig skotið upp kollinum á síðustu árum og eykur það enn á áskoranir vegna þessa sjúkdóms.

Ísland slapp ekki við lömunarveikina þó nokkuð langt um liðið sé síðan síðasti faraldur lömunarveiki var hér á landi. Síðustu þekktu tilfellin voru hér á árunum 1955-1957 og því eru enn á lífi einstaklingar, sem glíma við eftirköst þessa hræðilega sjúkdóms. Hin nýju stökkbreyttu afbrigði veirunnar hafa því miður verið að finnast í skolpræsum stórborga eins og New York og Lundúna.

Ekkert barn öruggt nema það sé bólusett

Það er því mjög mikilvægt að vera vakandi fyrir veirunni og halda áfram og klára það verkefni, að útrýma henni á heimsvísu. Fullyrt er að ef við útrýmum ekki veikinni munu 200.000 þúsund tilfelli greinast víða um heim á næstu 10 árum. En ekkert barn er öruggt nema það sé bólusett gegn þessum skelfilega sjúkdómi.

Rótarýsjóðurinn (Rotary Foundation) er gríðarlega öflugur mannúðarsjóður, sem hefur fjármagnað þetta starf á undanförnum árum. Allir Rótarýfélagar leggja fram fjármagn í þennan frábæra sjóð, annað hvort með föstu framlagi sem klúbbar greiða á hvern félaga, eða með beinu persónulegu framlagi. Stofnun Bill og Melindu Gates hefur í gegnum árin unnið með Rótarýsjóðnum að þessu verkefni. Fyrir hverja krónu sem rótarýfélagar leggja fram, þá leggur stofnunin fram tvær krónur!

Þú getur lagt verkefninu lið

Allir geta lagt verkefninu lið með því að styrkja End Polio Now verkefni Rótarý.

Tveir rótarýklúbbar eru starfandi í Hafnarfirði, Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar sem hittist í hádeginu á fimmtudögum og Rótarýklúbburinn Straumur sem hittist kl. 7 á fimmtudagsmorgnum. Þeir sem hafa áhuga á að leggja lið eða starfa með Rótarý geta smellt hér.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðunni Endpolio.org

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2