fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSigurður Tryggvi Sigurðsson fv. verkalýðsleiðtogi er látinn

Sigurður Tryggvi Sigurðsson fv. verkalýðsleiðtogi er látinn

Var um langt árabil fánaberi verkalýðshreyfingarinnar í Hafnarfirði

Sigurður Tryggvi Sigurðsson, fyrrverandi formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, er látinn. Hann lést á Landsspítalanum 21. janúar sl., 88 ára að aldri.

Sigurður Tryggvi Sigurðsson var ötull merkisberi verkalýðshreyfingarnar og gekk fjölda ára með rauða fánann 1. maí í Hafnarfirði. – Ljósm.: Guðni Gíslason

Sig­urður fædd­ist 5. júlí 1931 í Hafnar­f­irði og bjó þar alla tíð. Hann var yngst­ur þriggja barna þeirra Sig­urðar Tómasar Sig­urðsson­ar og Guðrún­ar Jóns­dótt­ur. Hann ólst upp í Hafnar­f­irði og gekk þar í skóla, út­skrifaðist úr Flens­borg­ar­skól­an­um 1949. Með skóla starfaði hann hjá Kaup­fé­lagi Hafn­f­irðinga og sinnti ýms­um störf­um til sjós og lands að námi loknu. Hann vann á Kefla­vík­ur­flug­velli 1951-1954 en sum­arið 1972 réð hann sig til starfa hjá Íslenska álverinu í Straumsvík og vann þar til 1981.

Sig­urður kynnt­ist verka­lýðsmá­l­um strax sem ung­ling­ur en faðir hans var í stjórn Hlíf­ar árin 1940-1950. Skömmu eft­ir að hann byrjaði hjá Ísal í Straums­vík var hann kos­inn trúnaðarmaður starfs­manna og gegndi því starfi til 1979. Sig­urður átti sæti í stjórn Hlíf­ar frá 1973 til 1978. Árið 1981 var hann kjör­inn vara­formaður Hlíf­ar og réðst til starfa hjá fé­lag­inu. Sig­urður varð formaður Hlíf­ar 1987 og gegndi því til árs­ins 2002. Eft­ir það starfaði hann í nokk­ur ár sem rit­ari Hlíf­ar, eða til árs­ins 2008.

Sigurður var kjarnyrtur og lá ekki á skoðunum sínum. Hann var kvikur í fasi og oft harður í horn að taka en það var stutt í húmorinn og hláturinn. 

Hlusta má hér á áhugavert viðtal Þorgríms Gestssonar við Sigurð frá 2007 og geymt er á Hljóðsafni Landsbókasafns Íslands. 

Eft­ir­lif­andi börn Sig­urðar eru Sig­urður Tryggvi, fædd­ur 1957, Guðrún, fædd 1958, Kol­brún Dag­björt, fædd 1961, Berg­lind, fædd 1964, og tví­bur­arn­ir Edda Sif og Elfa Björk, fædd­ar 1969. Afa- og langafa­börn Sig­urðar eru orðin 22 tals­ins.

Útför Sigurðar verður frá Hafnarfjarðarkirkju fimmtudaginn 30. janúar kl. 13.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2