fbpx
Miðvikudagur, ágúst 14, 2024
HeimFréttirSilungur eldaður í dagblöðum og franskar kartöflur á Landsmóti skáta

Silungur eldaður í dagblöðum og franskar kartöflur á Landsmóti skáta

Landsmót skáta var haldið 12.-19. júlí sl.

Hafnfirskir skátar voru áberandi á Landsmóti skáta sem haldið var á Úlfljótsvatni dagana 12. – 19. júlí sl.

Var þetta langþráð Landsmót þar sem síðasta mót var fyrir 8 árum en fella þurfti síðasta mót niður vegna Covid 19.  Mótin hafa verið haldin að jafnaði á 4 ára fresti en næsta mót verður þó eftir 2 ár á Akureyri.

Skátafélagið Hraunbúar sendi 59 almenna skáta á mótið og var fjölmennast íslenskra félaga en öflugt starf hefur verið hjá hafnfirskum skátum undanfarin ár. Þá er ekki síður öflugt starf eldri skáta í bænum en fjölskyldubúðir Hraunbúa voru einnig fjölmennastar en um 20 tjöld, tjaldvagnar og hjólhýsi voru í fjölskyldubúðum Hraunbúa.

Hafnfirskrir skátar í Skátafélaginu Hraunbúum á Landsmóti skáta 2024

En það voru skátar frá Kanada sem settu mestan svip á mótið en þeir voru 460 í heild frá ýmsum stöðum í Kanada. Er þetta lang stærsti erlendi skátahópur sem komið hefur á Landsmót íslenskra skáta.

En skátar komu frá alls 18 löndum og til gaman má geta að 120 skátar komu frá Hong Kong.

Alls voru 1.369 virkir skátar, 392 íslenskir og 977 erlendir en auk þeirra voru um 570 sjálfboðaliðar við störf á mótinu, þar af um 290 erlendir. Auk þessa voru um 200 manns í fjölskyldubúðum en svo fjölgaði mjög á svæðinu á heimsóknardeginum.

Alþjóðlegur svipur með alvöru íslenskt veður

Mótið hafði því á sér alþjóðlegan svip þó íslenska veðráttan hafi gert sitt til að gera mótið eins íslenskt og hægt var. Strax á öðrum degi hellirigndi á svæðinu og rigndi stanslaust í tvo daga. Svæðið fór víða á flot og skátarnir brugðu á ýmis ráð til að halda búnaði sínum þurrum. Þrátt fyrir mikla bleytu ríkti mikil jákvæðni og gleði á svæðinu enda reyndu allir að hjálpa hverjum öðrum og ýmislegt gert til að þurrka blautan búnað.

Skátar frá 18 löndum voru á mótinu

Þema Landsmótsins var „Ólíkir heimar“ sem vísaði til fjölþjóða þátttöku en skátahreyfingin er stærsta æskulýðs- og friðarhreyfing í heimi.

Fjölbreytt dagskrá

Dagskrá mótsins var fjölbreytt en hluti hennar er einnig að útbúa mat og vinna í tjaldbúð, því hvert félag sér um sig sjálft. Svæði skátanna á Úlfljótsvatni býður upp á mikla möguleika og það mátti sjá skáta sigla á vatninu, ganga upp á fjall og fara í gönguferðir en einnig var boðið upp sköpunarsmiðjur, bogfimi, klifur og stór þrautasvæði.

Meðal samfélagsverkefna var að skreyta undirgöng

Þjónusta við samfélagið var í hávegum höfð og allir skátar mótsins tóku þátt í því að bæta heiminn í einn dag, og vinna verkefni sem byggja upp skátamiðstöðina á Úlfljótsvatni.

Silungur eldaður í dagblöðum og franskar kartöflur

Hafnfirskir eldri skátar sáu um útieldunarpóst á mótinu með Claus Hermann Magnússon í forystu en hann hafði sjálfur smíðað öll eldunartæki, potta og upphengjur.

Tvisvar á dag var boðið upp á útieldunarpóstinn og skráðu hóparnir sig í póstinn og var eftirspurnin meiri en hægt var að ráða við þó engum hafi verið vísað frá sem mætti.

Eldað var yfir opnum eldi

Skátarnir fengu að prófa ýmislegt, m.a. að steikja ástarpunga sem þeir höfðu sjálfir hrært deigið í með höndunum. Voru þeir svo steiktir í olíu yfir eldi og þeim velt upp úr sykri í lokin en hurfu svo snarlega ofan í stolta skátana.

Þá fengu þeir einnig að prófa að elda silunga sem Claus hafði veitt í Úlfljótsvatni. Það var gert á tvo vegu, annars vegar að elda minni fiskana heila, vafða í dagblöðum sem voru svo bleytt með vatni áður en þeir voru lagðir á sjóðheit kolin. Þegar blöðin voru að mestu brunnin var fiskurinn tilbúinn og hann hvarf líka snarlega ofan í skátana. Til að gera þetta enn meira spennandi veltu skátarnir bútum af fiskflökum í orlýdeigi og djúpsteiktu, með þessu borðuðu þeir franskar kartöflur. Þær gerðu þeir úr heilum kartöflum sem þeir sneiddu niður í strimla sem voru svo tví djúpsteiktir og urðu að best frönsku kartöflum í heimi að sögn ungu skátanna.

Claus Hermann Magnússon við nær fullbúna Paellu

Og til að kitla bragðlaukana var elduð spænsk Paella. Skátarnir skáru niður allt grænmeti, steiktu kjúklingavængi á stórri pönnu yfir eldi og svo var grænmeti bætt við og kjötsoði, kryddað af mikilli tilfinningu, þurrkuðum sveppum bætt við og hrísgrjónum og látið malla. Að lokum var rækjum og silungi bætt við og gríðarlegt magn af ilmandi Paellu beið skátanna. Eins og annað hvarf hún ofan í þá þó ýmsir gestkomandi hafi fengið að smakka líka.

Kolbrún Ósk mótsstýra og Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra fengu að spreyta sig á að gera ástarpunga og tókst vel til

Hafnfirsku eldri skátarnir höfðu í nógu að snúast í reykjarmekkinum en nutu hverrar mínútu og ekki síður glöddust þeir yfir ánægju og þakklæti skátanna sem margir hverjir fóru á braut með áætlun um að gera slíkt þegar heim yrði komið.

Framlag sjálfboðaliða var gríðarlega mikilvægt á mótinu, margir hoknir af reynslu en aðrir að koma í fyrsta sinn en án sjálfboðaliðanna, þeirra íslensku og þeirra erlendu, væri ekki hægt að halda svona skátamót.

Sól, flugur og rigning

Eftir mjög blauta byrjun rættist úr og sólin fór að skína. Þá gladdist mýið eins og skátarnir og flugnanet urðu áberandi. Nú blómstruðu skátarnir og nutu sýn við fjölbreytt störf og ekki síst að kynnast skátum frá öðrum löndum, skiptast á merkjum og leika saman.

Gott var að nýta blauta veðrið til að blotna enn frekar í vatnasafarí.

Heimsóknardagur var á fimmtudegi en þá var einnig torgadagskrá þar sem félögin buðu upp á ýmislegt og gerðu ýmislegt skemmtilegt saman. Skátar tóku á móti fjölskyldum sínum og sýndum þeim búðir sínar og forsetinn, verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi, hr. Guðni Th. Jóhannesson sótti mótið heim þar sem honum var vel tekið.

Deginum lauk svo með hátíðarvarðeldi þar sem sungið var af mikilli innlifun og síðar um kvöldið var slegið upp balli með Stuðlabandinu sem ekki þótti leiðinlegt að spila fyrir svona ótrúlega hressa en algjörlega ódrukkna áheyrendur.

Föstudagurinn rann svo upp og þrátt fyrir leiðinlega veðurspá náðu allir að taka niður tjöld og búnað í þurru. Vel heppnuðu Landsmóti skáta var lokið.

Myndband sem Jakob Guðnason tók á mótinu

Myndasyrpa

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2