Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær, síðasta vetrardag, að hafinn verði undirbúningur að sölu 15,42% hlutfés sveitarfélagsins í HS Veitum hf. með það að markmiði að hlutabréf sveitarfélags verði seld.
Var tillagan samþykkt með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þannig að 3 greiddu atkvæði með tillögunni, fulltrúi Samfylkingarinnar greiddi atkvæði gegn tillögunni en fulltrúi Bæjarlistans sat hjá í atkvæðagreiðslunni.
Samfylkingin telur sölu á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu í hendur einkaaðila ekki réttu leiðinina
Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarráði segir að þrátt fyrir þær efnahagslegu áskoranir sem sveitarfélagið standi frammi fyrir sé sala á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu í hendur einkaaðila ekki rétta leiðin til að standa undir auknum útgjöldum sem þeim munu fylgja.
Segir í bókun Samfylkingar að lögum samkvæmt eigi HS Veitur ávallt að vera í meirihlutaeign opinberra aðila og því megi telja það óráð að takmarka aðkomu þeirra að rekstrinum enn frekar frá því sem gert var við sölu Reykjanesbæjar á 15% hlut sínum í árslok árið 2013 þannig að ríflega þriðjungur er nú í eigu einkaaðila. Með sölu á hlut Hafnarfjarðar væri þar með helmingur kominn í eigu einkaaðila.
„Mikilvægt er að sveitarfélög hafi skýra aðkomu að fyrirtækjum í almannaþjónustu og þess vegna er hluturinn samfélagslega mikilvægur. Því leggst Samfylkingin gegn því að hluturinn verði seldur til einkaaðila.“
Þá segir að tímasetning sölu nú geti tæplega talist góð í ljósi aðstæðna og eins megi draga í efa hvort sala á eignarhlut bæjarins í HS Veitum sé fjárhagslega betri kostur en lántaka miðað við núverandi markaðskjör og framreiknaðar arðgreiðslur til lengri tíma
Fulltrúi Miðflokksins vill að beðið verði eftir aðgerðum ríkisvaldsins til handa sveitarfélögunum vegna heimsfaraldursins
Sigurður Þ. Ragnarsson fulltrúi Miðflokksins sagði í bókun leggjast alfarið gegn almennri sölu á 15,42% hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS-veitum en hann sat samt hjá við atkvæðagreiðsluna.
Lagði hann áherslu á að beðið verði með að selja hlut bæjarins þar til fyrir liggur hvort og þá hverjar aðgerðir ríkisvaldsins verði til handa sveitarfélögunum vegna heimsfaraldursins, Covid 19. Komi engin björgunarpakki frá ríkisvaldinu leggur fulltrúi Miðflokksins til að hafnar verði samningaviðræður við ríkið um kaup á umræddum hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS-veitum. Ákvæði verði um forkaupsrétt bæjarfélagsins að hlutnum komi til endursölu hans.
Segir Sigurður að með aukinni einkavæðingu á dreifikerfi HS-veitna aukist þrýstingur á hærra orkuverð til neytenda í þessu tilviki íbúa Hafnarfjarðar. Því leggst fulltrúi Miðflokksins alfarið gegn almennri sölu á hlut bæjarins í HS-veitum.
Afstaða Viðreisnar mun ráðast af kjörunum
Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar sagði í bókun mikilvægt að gætt verði að almannahagsmunum verði farin sú leið að selja eignarhlut Hafnarfjarðar í HS veitum. Aðstæður gefi ekki von um að hámarksverð fáist fyrir hlutinn. Afstaða Viðreisnar muni því ráðast af þeim kjörum sem muni fást fyrir hlutinn.
Guðlaug Svala fulltrúi Bæjarlistann segir lítið svigrúm hafa verið til umræðu vegna trúnaðarkvaða
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, fulltrúi Bæjarlistans segir að tillaga um að setja hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS veitum í söluferli hafi komið fram með afar stuttum fyrirvara og lítið svigrúm hafi verið til umræðu vegna trúnaðarkvaða.
Segir hún ákvörðunina eiga sér margar hliðar, bæði tengt hlutverki slíkra samfélagsinnviða almennt og gildi eignarhaldsins fyrir Hafnarfjörð sértækt. Því hafi fulltrúi Bæjarlistans setið hjá.
Fulltrúar meirihluta segja sölu engin áhrif hafa á verðlagningu raforku
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja áherslu á að leitað verði tilboða í hluti Hafnarfjarðarbæjar í HS-Veitum á meðal breiðs hóps fjárfestingaraðila til þess að fá sem hæst söluverð.
Vilja þeir að andvirði sölunnar verði varið til fjárfestinga í innviðum bæjarins en jafnframt í að mæta efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins fyrir bæjarfélagið og íbúa þess.
Segja þeir að eignarhlutur í HS-Veitum hafi engin áhrif á verðlagningu raforku til neytenda í Hafnarfirði, en um verðlagningu og arðsemi gildi sérstök lög.
Reykjanesbær á stærstan hluta
Hluthafar HS Veitna eru eftirfarandi:
- Reykjanesbær 50,1%
- HSV eignarhaldsfélag slhf. 34,38%
- Hafnarfjarðarbær 15,42%
- Suðurnesjabær 0,10%
Miðað við viðskipti með 38% hlut í HSV eignarhaldsfélagi sem heldur utan um 34,38% hlutafjár í HS Veitum þá má ætla að verðmæti hlutafés Hafnarfjarðarbæjar gæti verið rúmir 3,6 milljarðar króna.
Eigið fé HS-Veitna í árslok 2019 var 14.402.618.000 kr. og nam heildarhagnaður ársins 1.592 milljónum króna. Heildarhagnaður án áhrifa niðurfellingar langtímaskuldar nam
903 milljónum króna en hagnaður ársins 2018 var 682 milljónir kr.
Samþykkt var tillaga á síðasta ársfundi að greiða ekki út arð á árinu 2020 sem heldur ekki var gert 2019 en var 500 milljónum kr. af hagnaði varið til kaupa á eigin hlutafé.
Með sölu væri saga Rafveitu Hafnarfjarðar endanlega fullrituð
Það var mjög umdeilt á sínum tíma þegar Rafveita Hafnarfjarðar var sameinuð Hitaveitu Suðurnesja og sjálfræði Hafnfirðinga í orkumálum þar með skert. Því má segja að ef af sölu á hlut í HS-veitum (áður Hitaveitu Suðurnesja) verði saga Rafveitu Hafnarfjarðar fullskrifuð en Rafveitan var mjög öflugt fyrirtæki á sínum tíma.